150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:27]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að varðandi öryggisþáttinn er það algerlega tryggt að í nýrri stofnun verði honum áfram sinnt af sama krafti og verið hefur og svigrúm á að vera til að gera enn betur hvað það snertir. Hv. þingmaður nefndi það sem ég hafði sagt í ræðu minni áðan um aukinn slagkraft í málaflokkinn og að við hefðum horft á húsnæðis- og mannvirkjamálin svolítið aðskilið. Annars vegar er hægt að horfa á húsnæðisáætlanir sem verið er að vinna að innan Íbúðalánasjóðs og hins vegar byggingargáttinni, alla þá framkvæmd, og svo mannvirkjamálin í heild sinni sem Mannvirkjastofnun hefur haldið utan um. Þarna hafa stofnanirnar verið að vinna ofboðslega þétt saman og það getur orðið kjarninn í því að skapa þann stöðugleika á húsnæðismarkaði sem við þurfum á að halda. Það gæti orðið gríðarlega mikilvægt til lengri tíma litið. Ég er mjög hissa á því að hv. þm. Birgir Þórarinsson skuli ekki sjá þann slagkraft og það sem hægt er að fá út úr því. Hann gerir lítið úr því að byggja þurfi upp aukinn slagkraft í málaflokknum og að þetta tvennt tali saman, þ.e. byggingarframkvæmdin og áætlanir í húsnæðismálum almennt.

Hv. þingmaður stóð fyrir fundi um helgina þar sem kallað var eftir reynslusögum af kerfinu og talað um að einfalda ætti stjórnsýsluna. Þetta er einmitt lykillinn í því og var það rætt á sérstökum fundi með Samtökum iðnaðarins í morgun. Þar þótti það mikið fagnaðarefni að verið væri að sameina þessar stofnanir til að ná fram einfaldari stjórnsýslu og meiri krafti, akkúrat því sem flokkur hv. þingmanns talaði fyrir í fréttaviðtölum nýverið. En þingmaðurinn er hins vegar búinn að hlaupa í hring og nálgast þessi mál allt öðruvísi og það er ótrúlega sérstakt.