150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og þakka þann áhuga sem hann hefur á málefnum Miðflokksins og nýafstöðnu flokksráðsþingi sem gekk afar vel. Margar góðar ályktanir voru lagðar fram þar sem ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna sér mjög vel. Hann kom inn á það að einfalda þyrfti regluverk og stjórnsýslu sem við í Miðflokknum erum svo sannarlega sammála honum um.

Nú er það svo að Mannvirkjastofnun vinnur eftir þeim lögum og reglum sem hér eru settar og þó að stofnunin sem slík sé færð yfir í aðra stofnun breytir það ekki því verklagi sem hún þarf að vinna eftir samkvæmt lögum. Hæstv. ráðherra þekkir þetta þannig að ekki er hægt að snúa út úr því. En ég styð það hins vegar heils hugar að regluverkið í kringum húsbyggingar verði einfalda. Þó má ekki gleyma öryggisþættinum, en það er hins vegar á könnu löggjafans, ekki þeirra starfsmanna sem starfa við stofnunina. Auðvitað þarf aukinn slagkraft á ákveðnum sviðum varðandi Íbúðalánasjóð, ég tek heils hugar undir það, en mér finnst eins og hæstv. ráðherra sé að gefa það í skyn að slagkraftur þeirra sem hafa starfað hjá Mannvirkjastofnun hafi verið slakur. Þetta hljómaði þannig, hæstv. ráðherra, ég verð bara að segja það.

Það verður að fara vel yfir þetta mál í nefndinni og kalla til alla þá sérfræðinga sem þekkja til þessa málaflokks. Við höfum ekki fengið að sjá neinar skýrslur frá sérfræðingum sem mæla sérstaklega með því að þessi sameining gangi í gegn. Það er mjög nauðsynlegt að fá þetta fram frá starfsmönnum og ég vísa aftur til þeirra faglegu þátta sem ég hef áhyggjur af varðandi Mannvirkjastofnun, að verið sé að slaka á þeim kröfum sem gerðar eru í þessum efnum og að þarna sé mikil þekking að fara úr stofnuninni. Það er áhyggjuefni.