150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:31]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður lýsir raunveruleika sem hvergi er settur fram í frumvarpinu og hvergi er fjallað um með þessum hætti. Þvert á móti er verið að tala um að mögulegt sé að sameina tvær stofnanir í eina nýja stofnun sem geti orðið kraftmeiri og öflugri komi til þeirrar sameiningar. Ég hvet hv. þingmann til að lesa frumvarpið aftur vegna þess að það er einmitt eitt af þeim skrefum sem mun fela í sér einfaldari stjórnsýslu, aukna samvinnu á milli ólíkra þátta og þar af leiðandi aukinn slagkraft og betri þjónustu við borgara landsins. Með nýrri stofnun fækkar kannski, og það á við um bæði Íbúðalánasjóð og Mannvirkjastofnun, þeim reynslusögum sem þingflokkur hv. þingmanns er að safna núna. Þetta frumvarp er einmitt í þeim dúr að verið er að stíga skref í átt að því að uppfylla það sem þarna þarf til. Þá er ekki verið að deila á nokkurn mann sem starfar hjá Íbúðalánasjóði eða hjá Mannvirkjastofnun heldur er þvert á móti verið að tala um að saman geti þessar stofnanir orðið enn kraftmeiri í nýrri stofnun þar sem allir málaflokkar, vegna þess að báðar stofnanirnar sinna fleiri en einum málaflokki, fái aukinn slagkraft. Það er gott og fallegt orð og ég mun nota það áfram og vonast til þess að hv. þingmanni snúist hugur þegar málið fer í gegnum þingið.