150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[16:58]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Eins og sá þingmaður sem talaði á undan mér komst ég ekki í andsvar við ráðherrann og ákvað þess vegna að koma hérna upp og ræða sérstaklega einn afmarkaðan þátt í þessu frumvarpi til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Ég er í heildina ánægð með þetta mál, grunninn í því. Það er vissulega stórt og miklar breytingar sem eiga sér stað. Af því að mikið hefur verið rætt um samráð og annað slíkt þá á stofnunin, eins og kom fram hjá hv. þingmanni áðan, að leiða formlegan samráðsvettvang. Bent er á í frumvarpinu að hann geti verið í formi fagráða með hagsmunaaðilum á þeim fagsviðum sem undir hana heyra. Ég held að það sé af hinu góða af því að markmiðið er, eins og segir í frumvarpinu, að efla stjórnsýslu og stefnumótun og framkvæmd þessara mála og hagræða um leið með samþættingu verkefna og fækkun stofnana, en ekki síður að auka samstarf við sveitarfélög og aðra hagsmunaðila.

Hér hefur verið rætt svolítið um brunavarnir og ráðherra hefur farið ágætlega yfir það og ég held að það verði eitthvað sem nefndin taki til sín og fari vel ofan í, það hlýtur að verða framhald málsins.

Mig langaði aðeins að ræða 15. gr. frumvarpsins þar sem talað er um að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eigi að starfrækja rafrænan gagnagrunn, svonefndan húsnæðisgrunn, sem eigi að vera miðlægur og halda utan um ýmis gögn og upplýsingar og um leið styrkja og styðja við rafræna byggingagátt sem sveitarfélögin skuli nota. Talað er um að áríðandi sé að hinn nýi húsnæðisgrunnur sé samtengdur við upplýsingakerfi sem embætti byggingarfulltrúa sveitarfélaga nota. Það er líka vitnað til þess að Íbúðalánasjóður sé að vinna að einhverjum slíkum húsnæðisgrunni og með því muni nást mikil og góð yfirsýn yfir stöðu húsnæðismála og fyrirhugaðar framkvæmdir.

Ég hef áður nefnt, og fleiri en ég, þegar við höfum talað um mál sem lúta að gagnagrunnum að það sé kannski verið að búa til litlar gorkúluhagstofur úti um allt kerfið okkar. Mér finnst að það megi velta því upp hvort ekki sé betur farið með fé og hvort ekki séu augljós samlegðaráhrif af því að bæta við tölfræðingi hjá Hagstofunni þar sem er stoðþjónusta, bæði hvað varðar upplýsingatækni og miðlunardeild, frekar en að ein minni stofnun ráði til sín og eigi svo að sinna öllu saman; búa til gæðakerfi og gagnagrunna eða kaupa það af einhverjum öðrum.

Það eru fleiri svona dæmi. Við erum með mælaborð í ferðaþjónustunni. Við erum með MAST. Við erum með tölfræðivinnslu Byggðastofnunar um alls konar hluti. Við erum eiginlega að búa til fullt af litlum hagstofum úti allt kerfið okkar, eins og ég sagði áðan. Mér finnst það eitthvað sem við þurfum að endurhugsa. Ef það verður hins vegar niðurstaðan að þetta eigi endilega að vera svona, þ.e. að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun haldi þennan sérstaka grunn og búi hann til, þá held ég að það verði að vera þannig. Ég velti því upp við ráðherrann að Hagstofan hafi þá aðgengi þar sem húsnæðistölfræðin yrði unnin. Það er svipað og Þjóðskrá Íslands hefur heimild til þar sem stofnunin er skráahaldari sem veitir, eins og við þekkjum, Hagstofunni þær upplýsingar og vinnur hagtölurnar á þeim grundvelli. Ef við þurfum að eignast fleiri tölur í húsnæðismálum held ég að mjög mikilvægt sé að við gerum það í nánu samstarfi við Hagstofuna af því hún á jú að samræma opinbera hagskýrslugerð á landinu. Það segir t.d. í 3. gr. í lögum um Hagstofuna, með leyfi forseta:

„Hagstofan annast samræmingu opinberrar hagskýrslugerðar sem hún og aðrar ríkisstofnanir hafa með höndum skv. 1. gr. Samræming þessi tekur til verkefna og aðferða við hagskýrslugerðina, þar á meðal til notkunar staðla og flokkunarkerfa, skilyrða um gæði og birtingu svo og um meðferð gagna sem safnað er til tölfræðilegrar úrvinnslu.

Hagstofan skal efna til reglubundins samráðs milli þeirra ríkisstofnana sem leggja stund á opinbera hagskýrslugerð eða safna gögnum sem eru mikilvæg til þeirra nota.“

Af því að Hagstofan sér um framleiðslu á hagtölum um húsnæði á Íslandi í dag þá held ég að um þetta þyrfti að vera einhvers konar notendasamstarf og velti því hér upp. Mér finnst við vera að eyða miklum tíma og miklum peningum í það að búa til gagnagrunna úti um allt kerfi en ég hef þá skoðun að Hagstofan og Þjóðskrá Íslands og skatturinn eigi að vera þeir aðilar sem hafi þau hlutverk á hendi.

Ég heyrði að ráðherra bankaði svo að hann hefur kannski einhver svör við því hvort hann sé mér sammála um að þetta eigi að skoða eða hvort hitt sé eitthvað sem honum finnst að eigi frekar að vera.