150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[17:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það sem ég er að hugsa líka, þótt ég átti mig á því að umfangið er að einhverju leyti öðruvísi, þetta er ekki bara söfnun upplýsinga til greiningar, en það er samt verið að búa til nýja stofnun, það eru ný tækifæri í því fólgin, er að við veltum því upp hvort við getum bætt þau kerfi sem við eigum fyrir að einhverju leyti. Í þessu tilfelli er verið að tala um byggingarstjóra og byggingarfulltrúa og þeir eigi sína gátt, þ.e. sveitarfélögin, og tengingu í það. Það er eitt. En síðan er það hin almenna tölfræði. Ég velti fyrir mér hvort hún eigi að vera hérna inni líka. Mér hefði fundist að við hefðum getað sagt: Við erum með apparat sem getur gert það en síðan getur eitthvað annað meira og sértækara sem lýtur beinlínis, eins og hæstv. ráðherra benti á, að framkvæmd bygginga, að fá leyfin o.s.frv., verið hérna undir. Mér finnst við vera með upplýsingasöfnunina mjög víða. Það er rétt að það er auðvitað bara pólitísk ákvörðun að horfa til þess. En af því að við erum með nýja stofnun þá finnst mér vera færi á því að hugsa þetta svolítið almennt og á víðfeðmari hátt og setja frekar inn í þá nýju stofnun það sem hún er bærari til að gera, en færa Hagstofunni áfram þau verkefni sem klárlega geta heyrt þar undir.