152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

stuðningur við fötluð ungmenni eftir framhaldsskóla.

116. mál
[15:59]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að setja þetta mál á dagskrá. Það er þannig með fötluð ungmenni og fatlað fólk að þar berum við, ekki bara samfélagið sem einhver svona óáþreifanleg stærð heldur stjórnvöld, við sem setjum lögin og framkvæmdarvaldið, mesta ábyrgð. Okkur ber hreinlega skylda til að sjá til þess að ungmenni á leið út í lífið, fötluð og ófötluð, fái störf við hæfi, geti sótt nám, geti blómstrað á sínum forsendum. Til að það gerist þá má það ekki vera, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, að það komi stjórnvöldum á óvart að á hverju ári séu það 60–90 ungmenni sem þurfa á okkur að halda, þurfa á þessari þjónustu að halda og við þeim þarf að taka skipulag sem grípur þau og kemur þeim á réttan stað.