152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

stuðningur við fötluð ungmenni eftir framhaldsskóla.

116. mál
[16:00]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég blanda mér í þessa umræðu til að leggja áherslu á og taka undir það sem hér er komið fram um mikilvægi þess að fötluð ungmenni hafi tækifæri til fjölbreyttrar þátttöku í samfélaginu, atvinnuþátttöku, til náms, fjölbreytts framhaldsnáms og símenntunartækifæra alveg frá því að þau ljúka námi og fram eftir lífinu sem og tómstundatækifæra. Ég fagna vinnu sem hefur farið fram og hvet hæstv. ráðherra til að fylgja eftir þeirri skýrslu sem fram er komin og eins og að við nýtum Fjölmennt, það tæki sem nær til ungmenna um land allt, ungmenna og fullorðinna, fatlaðra einstaklinga, og hefur oft og tíðum skapað mjög mikilvæg og fjölbreytt tækifæri til ýmissa verkefna.