152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

staða mála á Landspítala.

119. mál
[16:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Forseti. Vandi heilbrigðiskerfisins er mikill og hann virðist hreinlega vera kominn til að vera. Þótt hann hafi verið augljós í mörg ár og farið versnandi hefur Covid-faraldurinn svo sannarlega dregið hann fram í dagsljósið og svipt hulunni af því hve alvarlegur hann er. Þótt Covid hafi aukið á vandann, og alls ekki er verið að gera lítið úr því, hefur faraldurinn fyrst og fremst sýnt fram á hve heilbrigðiskerfið okkar má við litlu. Það er alltaf á fullum afköstum og nálægt neyðarástandi. Það virðist nokkuð ljóst að lítið megi út af bregða. Maður veltir því fyrir sér hvort heilbrigðiskerfið myndi ráða við fjölmenn slys án vandræða og án þess að það myndi bitna illa á annarri heilbrigðisþjónustu. Ég spyr því: Hvaða áætlanir hafa verið gerðar sem miða að því að efla getu heilbrigðiskerfisins til að takast á við skyndilega atburði, komi til neyðarástands eins og vegna stórslysa eða heimsfaraldurs?

Þá komum við að álaginu á heilbrigðisstarfsfólk. Það virðist sífellt vera gerð krafa um að starfsfólk vinni og/eða hlaupi hraðar. Það hlýtur að leiða til þess að fólk gefist upp á endanum og þegar eru fjölmörg dæmi um það. Óhjákvæmilega vaknar sú spurning hvort hættan á óafturkræfum mistökum aukist ekki til mikilla muna vegna viðvarandi ofurálags á starfsfólk. Ég spyr því: Hvaða áætlanir hafa verið gerðar til að minnka álag á heilbrigðisstarfsfólk, ekki hvað síst á bráðamóttökunni og hvenær koma þær til framkvæmda?

Það virðist einnig ljóst að aðbúnaður starfsfólks sé alls ekki nógu góður og ljóst að launin eru það ekki heldur enda er að stórum hluta um kvennastéttir að ræða, hvernig svo sem sú staðreynd samræmist jafnréttismarkmiðum ríkisstjórnarinnar bæði núna og á síðasta kjörtímabili. Starfsfólkið, hjúkrunarfólk, læknar, sjúkraliðar, fólk á rannsóknarstofum, í ræstingum og öllu öðru sem ég kann ekki að nefna, er spítalinn, þau eru hjartað. Það skiptir engu máli hve flottur nýi spítalinn verður ef okkar hæfasta fólk fæst ekki til starfa á honum þegar þar að kemur. Ég spyr því: Hvaða aðgerða hefur verið gripið til sem miða að því að stemma stigu við mönnunarvanda Landspítalans og koma í veg fyrir frekari uppsagnir heilbrigðisstarfsfólks?

Þá komum við að öldruðum og þjónustu við þá. Rætt hefur verið um aldraða sem fráflæðisvanda. Þetta er bæði ljótt og lítilsvirðandi orð því þeir öldruðu sem eru inni á spítala af því að önnur úrræði vantar eru ekki vandamálið. Vandamálið er að þessi málefni hafa verið látin reka á reiðanum í allt of mörg ár. Hvað er verið að gera í þeim málum svo aldraðir búi við bestu mögulegu lífsgæði sín síðustu ár? Já, bestu mögulegu lífsgæði, það á að vera markmiðið en það hefur svo sannarlega ekki verið raunin á undanförnum árum. Ég spyr því: Eru tilbúnar áætlanir um að fjölga hjúkrunarrýmum eða legurýmum og hvenær má samkvæmt þeim gera ráð fyrir að ný rými verði tekin í notkun?

Hæstv. heilbrigðisráðherra er nýtekinn við embætti og hann tekur því við viðvarandi neyðarástandi og kannski ekki alveg sanngjarnt að hann þurfi að svara fyrir ástandið á þessum tímapunkti. Að því sögðu þá hefur sama ríkisstjórnin ráðið málum í rúm fjögur ár og mínar spurningar lúta að því starfi sem unnið hefur verið í ráðuneytinu undir þessari ríkisstjórn, til að bregðast við þeim vanda sem blasað hefur við jafn lengi og raun ber vitni.