152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

biðlisti barna eftir þjónustu talmeinafræðinga.

121. mál
[17:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil blanda mér í þá mikilvægu umræðu sem fram fer um þjónustu talmeinafræðinga. Það er auðvitað stórt skref sem var stigið við að bæta þjónustuna með breytingu á reglum um greiðslur. En ég vil líka nota tækifærið og hvetja hæstv. ráðherra til að horfa sérstaklega á möguleika fjarþjónustu og fjarkennslu í þeirri endurskoðun sem nú fer fram á starfsumhverfi talmeinafræðinga og samningum við þá. Ég hef upplifað og fylgst með talmeinafræðingum veita mjög góða þjónusta í gegnum ýmiss konar tæknibúnað en það er líka mjög mikilvægt að nám fyrir talmeinafræðinga sé í boði fyrir þá sem eru búsettir úti á landi. Þar eru einmitt oft kennarar eða aðrir sem eru vanir að þjónusta þennan hóp sem þarf á talmeinafræðingum að halda og vilja mennta sig í greininni.