152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

biðlisti barna eftir þjónustu talmeinafræðinga.

121. mál
[17:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir svörin og heyri að hann er allur af vilja gerður og steig mikilvægt skref strax með afnámi þessarar tveggja ára reglu. En ég vildi brýna hann til dáða með það að skoða samhliða í gegnum Sjúkratryggingar hvernig fjármögnun er háttað. Ég hefði líka áhuga á að heyra það hvort starfshópurinn, sem ég vísaði til hérna í upphafi, hefði lagt fram einhverjar tillögur, starfshópurinn sem að vísu þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra skipaði um heildstæðar tillögur um þjónustu talmeinafræðinga. Ég átta mig á því að þetta er þjónusta og málaflokkur sem er á mörkum ólíkra sviða. Þetta er þjónusta sem er á vegum heilbrigðiskerfisins, þetta er þjónusta sem kemur inn á skólana, aldursmark þeirra barna sem þarna eiga mest undir, fjögurra til sjö ára, segir auðvitað ákveðna sögu um það. Þarna erum við annars vegar með leikskólabörn og hins vegar með grunnskólabörn. Ég myndi vilja horfa líka aðeins á greiningarfasann. Hann er kostnaðarsamur, hann er kostnaðarsamur fyrir sveitarfélögin, hann er svifaseinn og ég spyr hvort það sé hægt að taka einhver skref í þá átt að gera þetta greiningarferli raunverulega að hluta þess ferlis að flýta fyrir þjónustu og meðferð barna en ekki þannig að greiningarferlið sé orðið hindrun barna við að fá þjónustu og horfa til þess hvernig megi styðja við foreldra og kennara í þessum sporum.

Ég myndi í lokin, af því ég sé að tíminn er að hlaupa frá mér, vilja taka heils hugar undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um að ef stjórnvöld ætla sér að vera hluti af lausninni en ekki lengur hindrun þá verður auðvitað að reyna að nýta þær lausnir sem eru til staðar, nýta þær tæknilausnir sem eru til staðar og það er jafnframt mikilvægt svar gagnvart íbúum landsbyggðanna, nýta það fagfólk sem er starfandi. Ég fæ að ljúka orðum mínum þar, kemst ekki lengra.