153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

viðhald á kirkjum.

[10:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Fjárhagsvandræði kirkjunnar hafa aftur verið til umræðu að undanförnu og eru nú orðin slík að kirkjan sér sig nauðbeygða til að selja eignir, hækka leigu og gera aðrar slíkar ráðstafanir. Þegar maður fer um landið og skoðar gamlar, fallegar kirkjur sér maður víða að þær liggja undir skemmdum. Kirkjan hefur ekki einu sinni efni á því að viðhalda og vernda þennan mikilvæga menningararf, en á undanförnum árum hefur kirkjan gefið eftir milljarða af þeim tekjum sem hún þó átti rétt á frá ríkinu á grundvelli gildandi samninga. Telur hæstv. fjármálaráðherra tilefni til að koma til móts við kirkjuna nú, þótt ekki væri nema með því að virða gildandi samninga og hugsanlega gera upp eða endurgreiða eitthvað af því sem kirkjan gaf eftir á sínum tíma til að aðstoða við það að fleyta ríkinu í gegnum erfiða efnahagslega tíma?