153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

stéttaskipting á Íslandi.

[10:52]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér á 20. öldinni varð til stjórnmálaflokkur, varfærinn íhaldsflokkur sem sagði stétt með stétt og viðurkenndi þar með, athugið það, viðurkenndi stéttaskiptingu í íslensku samfélagi. Þessi flokkur horfðist í augu við vandann, stéttaskiptinguna, en kallaði eftir samstöðu þvert á stéttir. Þessi varfærni íhaldsflokkur er ekki lengur til. Nú segja Sjálfstæðismenn ekki lengur stétt með stétt heldur segja þeir að Ísland sé stéttlaust samfélag, með leyfi forseta: „Við höfum byggt upp stéttlaust samfélag.“ Þetta sagði hæstv. ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi síðustu helgi.

Hér var rætt um sjávarútvegsmál rétt í þessu og hér er ein staðreynd. Á síðasta ári voru þrír útgerðarmenn á Íslandi með 3 milljarða kr. hver í fjármagnstekjur. Það eru þúsundföld árslaun öryrkja. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra tveggja spurninga og ég bið hann um að tala ekki í kringum þær. Ég er ekki að spyrja sérstaklega um einhverja Gini-stuðla eða mælingar á tekjujöfnuði, ég er að tala um stéttaskiptingu, ég er að tala um fólk hérna. Þetta eru tvær spurningar. Númer eitt: Telur ráðherrann að öryrkinn og stórútgerðarmaðurinn tilheyri sömu stétt? Og númer tvö: Fæðist barn öryrkjans inn í sömu stétt og barn útgerðarmannsins? Trúir hæstv. fjármálaráðherra því að þessi börn fái sömu tækifæri og tilheyri sömu stétt?