153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi dómsniðurstöðuna þá var ekki hægt að gera ráð fyrir henni í fjárlögum. Við höfum áður tekið það af almennum varasjóði ef ríkið tapar dómsmáli. Það er eðlileg ráðstöfun í mínum huga.

Varðandi það að nýgengi örorku hafi verið minna en gert var ráð fyrir í fjárlögunum þá kann ég ekki að útlista skýringar á því en við höfum séð hærra hlutfall fara í endurhæfingarörorkulífeyri og vonandi tekst okkur með þeim hætti að koma í veg fyrir að margir endi á varanlegri örorku sem eiga sér t.d. von um að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Það væri þá góð fjárfesting í endurhæfingarörorkulífeyrinum vegna þess að það eykur lífsgæði og sparar samfélaginu sömuleiðis stuðning sem ella myndi falla til. Síðan er það önnur umræða hvort við ættum að gera meira og betur í almannatryggingum en ég er nú reyndar mjög stoltur af því að sjá hversu mikil aukning hefur verið á kaupmætti bóta undanfarin 6–10 ár.