154. löggjafarþing — 29. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[22:45]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga ásamt félögum mínum í allsherjar- og menntamálanefnd, þeim Halldóru Mogensen frá Pírötum, Bergþóri Ólasyni frá Miðflokki, og Sigmari Guðmundssyni frá Viðreisn. Í breytingartillögunni segir að 4. gr. falli brott sem og 3. mgr. 5. gr.

Við í Flokki fólksins, sem og flutningsmaður þessarar breytingartillögu, styðjum Grindvíkinga heils hugar á þessum erfiðu tímum í lífi þeirra og sveitarfélagsins. Mikilvægt er að við öll sem samfélag og þjóð stöndum með Grindvíkingum og Reyknesingum á þeim erfiðu tímum sem nú dynja yfir í þeim náttúruhamförum sem ganga yfir á Reykjanesskaga. Þessar náttúruhamfarir snúast fyrst og fremst um fólk og íbúa svæðisins og hvernig við sem samfélag bregðumst við þeim eldsumbrotum sem væntanleg eru.

Við styðjum þetta frumvarp heils hugar en við teljum hins vegar óþarfa að setja í frumvarpið ákvæði um nýja skattlagningu vegna þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar eru. Af þessari ástæðu mæli ég fyrir brottfalli. 4. gr.

4. gr. frumvarpsins fjallar um upptöku svokallaðs forvarnagjalds, líkt og ákvæðið heitir í frumvarpinu. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að uppbygging varnargarðs í Svartsengi kosti um 2,5 milljarð kr. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins öðlast gjaldtökuákvæðið, þ.e. 4. gr., gildi 1. janúar 2024 og fellur úr gildi 31. desember 2026. Alþingi ætlar sér að afgreiða í kvöld frumvarp til laga á einum degi. Það var mælt fyrir því eftir hádegi í dag og það fór til nefndar í vinnu í dag og svo erum við nú komin í 2. umræðu og ætlum að afgreiða þetta sem lög strax í kvöld.

Í fyrsta lagi er hér um ákvæði að ræða sem ætlað er að taki gildi 1. janúar 2024. Slíkt ákvæði um skattlagningu á ekki að keyra í gegn á Alþingi á einum degi. Gildistakan er 1. janúar næstkomandi. Það sem meira er þá er kveðið á um varasjóð í lögum um opinber fjármál. Í ákvæði 24. gr. segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til fjárlaga skal gera ráð fyrir óskiptum almennum varasjóði til að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg, óhjákvæmileg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt lögum þessum.“

Í fjárlögum þessa árs eru lagðir til 34,5 milljarðar kr. Á næsta ári er gert ráð fyrir að í varasjóði verði 45 milljarðar kr. Hér er um framkvæmd að ræða sem er á bilinu 2,5–3 milljarðar og það er fráleitt að ætla að setja skattlagningu á þjóðina og samfélagið í lögum sem eru ætluð til að bregðast við þeirri neyð sem nú er á Reykjanesi. Ég tel að þetta sé mikilvægt atriði þegar við erum að skoða útgjöldin sem hér eru að eiga sér stað. Í frumvarpi til fjárlaga á þessu ári er gert ráð fyrir útgjöldum upp á um 1.200 milljarða kr. Á næsta ári er gert ráð fyrir útgjöldum upp á um 1.400 milljarða kr. Hér er augljóslega verið að setja á skattheimtu sem er alger óþarfi og útgjöldin varðandi þessi viðbrögð, til að vernda mikilvæga innviði á Reykjanesskaga, á að taka úr varasjóði, svo einfalt er það. Einnig má benda á að í næstu viku kemur frumvarp til fjáraukalaga og við munum afgreiða 2. umræðu fjárlaga núna seinna í mánuðinum. Við eigum að nota varasjóðinn til þess að greiða þennan kostnað sem hér er verið að leggja í en ekki setja auknar álögur á borgarana.