137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild.

[15:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta mál, þ.e. tillagan sjálf, er í meðförum í utanríkismálanefnd þar sem ég veit að hv. þingmaður situr. Hann er sennilega betur upplýstur nákvæmlega um stöðu málsins þar en ég sem sæki að vísu stundum fundi í utanríkismálanefnd sem fjármálaráðherra en það er af öðrum ástæðum.

Varðandi meðferð þessa máls er augljóst að tvennt þarf til, eða þrennt má segja, til að fá endanlegar lyktir í málið. Það þarf að samþykkjast af tveimur þingum með alþingiskosningum á milli og það þarf samþykki þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Það hefur aldrei verið gengið út frá öðru, virðulegi forseti, en að þjóðin hafi síðasta orðið í þessum efnum — (Gripið fram í.) ekki nema hér séu einhverjir í þessum sal sem ætli ekki að taka mark á afstöðu þjóðarinnar.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru (BJJ: Utan …?) ýmist ráðgefandi eða bindandi að lögum og þegar maður skoðar hvernig þetta hefur verið gert í Evrópu er það ýmist. Í þeim tilvikum sem þær eru ráðgefandi eins og ég hygg að hafi verið t.d. í Noregi lá það fyrir og allir höfðu lýst því yfir, allir stjórnmálaflokkar, að þeir mundu virða niðurstöðu þjóðarinnar. Það er mjög einföld lausn til á þessu máli ef menn vilja að þjóðin komi að því og segi álit sitt á samningsniðurstöðu áður en stjórnarskrá hefur verið breytt og það er einfaldlega að flokkarnir sammælist um að þeir muni hlíta niðurstöðu þjóðarinnar. Þá er ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla í reynd og í eðli sínu bindandi. Hv. þingmaður veit jafn vel og ég að til að gera þjóðaratkvæðagreiðsluna bindandi þarf stjórnarskrárbreytingu, að talið er, og þess vegna er þetta þá líka spurning um á hvaða stigi málsins menn telja að þjóðin eigi að segja álit sitt. Það er ekkert vandamál að ganga frá því þannig að sú niðurstaða gildi, hvort sem þau lög sem um þá þjóðaratkvæðagreiðslu gilda (Forseti hringir.) eru ráðgefandi eða bindandi.