137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er ekki hægt annað en að taka undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, þetta er ekki boðlegt. Hér er hent inn í þingið, eins og ekkert sé sjálfsagðara, beiðni um að þingið staðfesti 290 milljarða kr. lánveitingaheimild til viðbótar við allt hitt og það er ekki haft fyrir að útskýra hvers vegna. Hvers vegna þarf allt í einu nærri því 300 milljarða í viðbót við það sem áður var áætlað? Hvernig stendur á því að í þessari áætlun um upphæðir er enn þá gert ráð fyrir því að 385 milljarðar fari inn í bankana þrátt fyrir að hæstv. viðskipta- og fjármálaráðherrar séu margbúnir að ítreka að það muni ekki þurfa þessa upphæð inn í bankana? Hefur það þá eitthvað breyst? Erum við aftur farin að horfa á a.m.k. 385 milljarða og jafnvel meira? Hér eru aftur komnar þessar gömlu tölur sem búið var að tala um að mundu lækka frekar en hitt og svo er bætt við nærri því 300 milljörðum — og ekki er haft fyrir því að útskýra fyrir þinginu hvers vegna.

Það blasir við öllum sem vilja sjá það að hér er verið að skuldbinda ríkið umfram getu þess til að greiða til baka. Þá segir hæstv. fjármálaráðherra bara: Ja, það verður krefjandi verkefni að endurfjármagna lánin á næstu árum. Ráðherrann gerir sér sem sagt grein fyrir því að það muni þurfa að endurfjármagna lán. En í hvaða aðstöðu erum við til þess?

Því hefur verið haldið fram að 5,6% vextir á Icesave-láninu séu góðir vextir, það væri ekki hægt að fá þá vexti annars staðar. Hvernig ætlar þá hæstv. ráðherra að fara að því að fá jafngóða eða betri vexti annars staðar þegar kemur að endurfjármögnun? Við skulum hafa í huga að ef hann ætlar að greiða hærri vexti en 5,6%, segjum 7% því að það hefur komið fram að það sé ekki hægt að fá betri vexti, þýðir það að vextir á Icesave-láninu hækka líka. Það er eitt af fjölmörgum stórfurðulegum og stórhættulegum ákvæðum í þessum Icesave-samningum að ef við gerum annan lánasamning á hærri vöxtum hækka vextirnir á Icesave-samningunum, ein af fjölmörgum gildrum sem þar er að finna. Það sjá allir sem bara reikna að Ísland getur ekki staðið undir þeim skuldum sem nú er verið að setja á ríkið og þá er ekki einu sinni haft fyrir því að útskýra hvers vegna við eigum að taka á okkur þessar skuldir.

Líklega er tilfellið bara það að ríkisstjórnin gerir sér enga grein fyrir því út í hvað hún er komin. Hæstv. forsætisráðherra upplýsti í þinginu að hún hafði ekki hugmynd um það að 300 milljarðar í vexti af Icesave-láninu mundu óumflýjanlega falla á ríkið. Hún vissi ekkert af því, sagði bara: Ja, það verður að koma í ljós. Þeir breyttu í engu afstöðu hennar til Icesave-lánsins, þessir 300 milljarðar til eða frá. Hvað er það? Ríkisstjórnin gerir sér enga grein fyrir þeim upphæðum sem hér er um að ræða, reiknar dæmið ekki til enda, heldur bara blekkingunni áfram þrátt fyrir að það verði smátt og smátt erfiðara og erfiðara þangað til á endanum að ríkið er komið í þrot og búið að missa alla möguleika á að vinna sig út úr stöðunni. Möguleikarnir eru þrátt fyrir allt ágætir enn sem komið er, svo framarlega sem ekki verða gerð þau mistök sem nú stefnir í.

Meira að segja hæstv. viðskiptaráðherra kom upp áðan og hélt fram þeirri reginfirru að 5 milljarðar í útflutningstekjur væru til ráðstöfunar til að greiða Icesave-skuldirnar. Það er bara ekki rétt. Það er hreinlega ekki rétt. Það getur ekki verið að hæstv. ráðherra, prófessorinn, geri sér ekki grein fyrir því að megninu af þessari upphæð, útflutningstekjum Íslendinga, verður þegar ráðstafað í vaxtagreiðslur og til að standa straum af nauðsynlegum innflutningi sem gerir okkur kleift að skapa útflutningstekjurnar. Veit hæstv. ráðherra ekki að það þarf að kaupa hráefni til álframleiðslu? Veit hæstv. ráðherra ekki að það þarf að kaupa olíu á fiskiskipin? Veit hæstv. ráðherra ekki að það þarf að kaupa eldsneyti á flugvélarnar til að flytja ferðamennina til landsins og umfram allt þarf að borga vexti af þeim lánum sem útflutningsgreinarnar, sveitarfélögin og ríkið hafa tekið í erlendri mynt? Þessir 5 milljarðar, útflutningstekjur, eru ekki til staðar. Það er ekki til gjaldeyrir til að standa undir Icesave-skuldunum og fullyrðingar ráðherra um annað eru hrein og klár blekking.

Svo hefur komið fram í fjölmiðlum nýverið, í Morgunblaðinu um helgina, að strax við upphaf bankahrunsins hafi legið fyrir í Seðlabankanum ítarleg áætlun um það hvernig mætti skipta upp bönkunum þannig að sem allra minnst áhætta lenti á ríkinu og til að tryggja það umfram allt að áhættufjárfestingar útlendinga á Íslandi lentu ekki á endanum á íslenskum skattgreiðendum. Það var ekki farið eftir þessari ráðgjöf. Og hver er ástæðan? Af fréttaflutningi að dæma virðist hún fyrst og fremst vera sú að Samfylkingin í ríkisstjórn vildi ekki þiggja nein ráð sem tengdust Seðlabankanum vegna persónulegrar óvildar í garð manns sem þar starfaði. Það var ekki einu sinni litið við ráðgjöf sem Seðlabankinn hafði milligöngu um, allt út af einni persónu. Samfylkingin gat ekki hafið sig yfir það og andúð hennar í garð þáverandi seðlabankastjóra stöðvaði það að ráðgjöf frá bandaríska fjárfestingarbankanum J.P. Morgan um hvernig endurreisa mætti íslenska bankakerfið og lágmarka áhættuna fyrir Ísland væri beitt. Í staðinn var farið af stað í þá vegferð sem enn sér ekki fyrir endann á og er orðin að eintómu fíaskói sem ekki er með nokkru móti hægt að útskýra hvernig eigi að klára, um skiptingu bankanna í gömlu bankana og þá nýju. Að því er virðist gerir það ekki annað en að auka enn áhættuna sem hvílir á íslenska ríkinu, auka hana langt umfram það sem ásættanlegt er við núverandi aðstæður. Enn og aftur leiða ráðstafanir ríkisstjórnarinnar til þess að áhættan sem ætti að lenda utan landsteinanna er flutt yfir á íslenska ríkið og íslenska skattgreiðendur. Aldrei eru færð rök fyrir því hvers vegna þetta er gert svona. Svo bætist þetta við, þessir tæpu 300 milljarðar sem er ekki einu sinni haft fyrir því að útskýra hvers vegna við eigum að fallast á nema, jú, það er getið örlítið um að það gæti þurft að endurfjármagna hjá Landsvirkjun. Þá gerir hæstv. ríkisstjórn greinilega ekki ráð fyrir því að Landsvirkjun geti sjálf endurfjármagnað sig. Þetta sýnir ekki mikið traust til Landsvirkjunar og lánshæfismats hennar en ríkisstjórnin telur sem sagt að það verði nauðsynlegt fyrir ríkið að hlaupa undir bagga með Landsvirkjun svoleiðis að hún geti — hvað? Geti haldið áfram virkjanaframkvæmdum. Þá verða líklega öll þau mál sem Vinstri grænir börðust fyrir í kosningabaráttunni fallin.

Aldraðir og öryrkjar, átti ekki að slá skjaldborg um þá og gæta hagsmuna þeirra sérstaklega, verja þá í þeim aðgerðum sem ráðist yrði í? Þeir voru fyrstir, fyrst fórnað af öllum. Evrópusambandið, Vinstri grænir eru leiðandi í því, í rauninni má segja að hæstv. fjármálaráðherra dragi Samfylkinguna á eftir sér í átt að aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Icesave-málið, það þarf ekki að fjölyrða um það. Til eru heilu bunkarnir af greinum og ræðum sem hæstv. fjármálaráðherra flutti um að það væri með öllu óásættanlegt að fallast á Icesave-skuldbindingarnar. Núna reiðist hann ógurlega þegar gefið er í skyn að hægt sé að gera eitthvað annað en að fallast á hvað svo sem Evrópusambandið krefst í þeim efnum.

Svo eru það virkjanirnar. Er þetta þá ekki allt komið? Vantar kannski hugsanlega upp á að fjármálaráðherra leggi til að stofnaðar verði Varnarsveitir ríkisins, lítill íslenskur her? Þá eru Vinstri grænir búnir að fullkomna tilveruréttinn.

Við fáum ekkert að vita. Það er allt gefið eftir gagnvart útlöndum og allt gefið eftir gagnvart kjósendum og þingið fær ekkert að vita. Við fáum ekki að vita hvernig á að nota hátt í 1.000 milljarða króna nema mjög óljóst. Svo bætist við að hæstv. fjármálaráðherra kynnir til sögunnar nýjar hagfræðikenningar sínar og þar ber hæst að skuldir verði ekki til þegar lán eru tekin. Þetta virðist vera enn ein tilraunin til að fjarlægja sjálfan sig frá þeim hlutum sem hann er að framkvæma. Nú gengur hæstv. ráðherra meira að segja svo langt að halda því fram að skuldir verði ekki til þegar þær eru teknar. Hæstv. ráðherra er að taka lánin og auðvitað er það óþægilegt fyrir hann. Þá brýtur hann bara öll náttúrulögmál og heldur því fram að skuldirnar verði ekki til þegar til þeirra er stofnað, þær hafi orðið til þegar ástæðan fyrir því að lánin eru tekin varð til.

Gott og vel. Fáum við þá ekki að vita hver þessi ástæða er, hvers vegna hæstv. ráðherra tekur þessi lán sem auka ekki skuldir ríkisins að hans mati? Hvers vegna getum við þá ekki fengið að vita hvers vegna verið er að taka lánin? Svo gengur hæstv. ráðherra enn þá lengra og er raunar farinn að færa sig meira og meira í smiðju bankanna. Hugsanlega hefur hæstv. ráðherra legið of mikið yfir bankakerfinu og því sem það gerði síðustu árin því að aftur og aftur koma upp dæmi um að ráðherrann er farinn að leita í smiðju bankanna um aðferðir til að reyna að grafa sig út úr holu. Það nýjasta er að fela skuldir ríkisins með því að hafa þær ekki allar á reikningi ríkisins, heldur dálítið hjá Seðlabankanum og dálítið hjá innstæðutryggingarsjóði og hér og þar, rétt eins og sumir útrásarvíkingar nánast fela skuldir sínar í hliðarfélögum hér og þar. Þetta hefur hæstv. ráðherra þó lært af því að leggjast yfir efnahagshrunið en ég hefði frekar kosið að hann liti á þetta sem eitthvað til að varast en til að fylgja eftir. Auðvitað er stærsta eftiröpunin Icesave-málið sjálft því að með því er ekki verið að gera neitt annað en það sem Landsbankinn gerði þegar hann stofnaði til Icesave-skuldanna. Þá hugsuðu menn þar á bæ sem svo: Efnahagsástandið hlýtur að lagast, þar af leiðandi hækka eignir bankans í verði og við munum í framtíðinni geta staðið straum af öllum þessum innlánum. Þeir tóku þannig alveg gífurlega áhættu og óforsvaranlega áhættu fyrir hönd þeirra sem fengnir voru til að leggja peninga inn í bankann.

Núna ætlar hæstv. fjármálaráðherra að gera nákvæmlega það sama með peninga íslenskra skattgreiðenda. Nú er allt Ísland undir og það á að taka þetta risastóra kúlulán, sem Icesave-lánið er, í þeirri von að eignir bankans komi til með að hækka í verði og að við munum geta staðið undir þessu öllu saman þrátt fyrir að einföldustu útreikningar sýni fram á allt annað. Það er ekki með nokkru móti hægt að standa undir þessum Icesave-skuldbindingum og ríkisstjórnin hefur ekki sýnt einar einustu tölur, ekki birt neitt á pappír um það hvernig á að vera hægt að standa undir þessu. Nú sitja menn reyndar með sveittan skallann og reyna að reikna hvernig í ósköpunum sé hægt að sýna fram á þetta, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði á þingflokksfundi Framsóknarflokksins, að núna væru menn farnir að reikna þegar þeir væru búnir að skrifa undir samninginn og væntanlega ætla þeir að reyna með einhverjum bókhaldsbrellum að sýna fram á það hvernig Íslendingar eigi að geta staðið undir þessum skuldbindingum. Þá er kannski hægt að líta á hvernig bankarnir gerðu þetta. Nei, ég er dálítið hræddur um að menn muni sjá í gegnum það rétt eins og þeir hafa séð í gegnum öll þau rök sem ríkisstjórnin setti fram í upphafi fyrir því að samþykkja ætti Icesave-skuldbindingarnar. Ekki eitt atriði hefur staðist.

Nú er þá ekkert eftir nema hræðsluáróður eins og sá sem hæstv. viðskiptaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra viðhafa um að Ísland verði að Kúbu norðursins ef við stöndum ekki við þessar skuldbindingar þrátt fyrir að raunin sé að sjálfsögðu þveröfug. Þau ríki einangrast sem skuldsetja sig um of í erlendri mynt og geta ekki staðið í skilum. Þau þurfa að viðhalda gjaldeyrishöftum. Þau eru með viðvarandi veika mynt og geta ekki keppt um fólk og fyrirtæki, missa hæstlaunaða fólkið úr landi og lenda að lokum í því að þurfa að hefta flæði fólks. Það getum við Íslendingar ekki gert svoleiðis að hættan er sú, sú hætta sem hér er verið að búa til, að Ísland skuldsetji sig um of, fólk flytji unnvörpum af landi brott og að eftir verði eftirlaunaþegar og fólk í láglaunastörfum að reyna að streða fyrir sífellt hækkandi erlendum skuldum.

Þetta er sú fátæktargildra sem svo mörg lönd hafa lent í víða um heim, oft og tíðum með hjálp Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem aldrei hefur haft rétt fyrir sér í áætlunum sínum um hagvöxt og hvernig ríki eiga að vinna sig út úr skuldum. Nú telur hæstv. ráðherra að allt í einu í tilviki Íslands muni Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hitta á að spá rétt fyrir um þróunina og við munum sleppa við þessa fátæktargildru sem svo mörg ríki hafa lent í þrátt fyrir að allar tölur bendi til þess að við stefnum hér í slíka fátæktargildru.

Það sorglega við það er að við þurfum þess ekki. Við erum í aðstöðu til þess, miklu betri aðstöðu en líklega nokkurt annað ríki í heiminum, að vinna okkur hratt út úr kreppunni vegna þess að það sem hér hrundi var að miklu leyti erlent lánsfé. Nú vinnur hins vegar þessi ríkisstjórn að því hörðum höndum að slá skjaldborg um erlenda kröfuhafa og færa sem mest af þessum kröfum yfir á íslenska ríkið og íslenska skattgreiðendur svoleiðis að í staðinn fyrir að vera í einna bestri stöðu verður Ísland í hvað verstri stöðu til að vinna sig út úr þessum ógurlegu efnahagslegu hamförum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)