138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil gjarnan taka undir athugasemdir annarra þingmanna og spyrja hvar ráðherrarnir eru. Fjármálaráðherra sat hérna hluta dags og hlustaði á okkur í þingsal. Hann talaði síðan um að hann ætlaði að skreppa aðeins frá í kvöld en koma aftur og maður skildi það svo sem, en nú er klukkan 7 mínútur yfir 11 og hann er ekki enn þá kominn. Utanríkisráðherra hefur ekki sést hérna, þetta mál hefur verið á hans könnu líka, og forsætisráðherra hefur alls ekki sést.

Þó að það séu komnir þrír eða fjórir stjórnarliðar sakna ég hinn 22 þingmannanna, eða 21 að viðbættum herra forseta, sem vildu svo gjarnan hafa þennan kvöldfund, sem samþykktu að hafa hann og gátu engan veginn — og þá tek ég forseta með í því — (Forseti hringir.) sagt í hádeginu að ætlunin væri að funda hérna langt fram á nótt. (Forseti hringir.) Ég mótmæli þessum vinnubrögðum. (Forseti hringir.) Þeir þingmenn sem vilja (Forseti hringir.) vera með þessa kvöldfundi ættu þá a.m.k. að hunskast (Forseti hringir.) til að sitja í þingsal fyrst þeir vilja hafa fundinn.