140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[18:53]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Það er að minnsta kosti þrennt sem er að sértækum skuldaúrræðum stjórnarflokkanna. Í fyrsta lagi hefur úrræðið greiðslujöfnun aukið skuldabyrði fólks í stað þess að minnka hana eins og áformað var í upphafi. Í öðru lagi hefur greiðsluaðlögun tekið allt of langan tíma. Í þriðja lagi hefur 110%-leiðin falið í sér það sem eftirlitsnefndin kallar handahófskennt óréttlæti, sem er afar athyglisvert hugtak í ljósi þess að við völd er norræn velferðarstjórn sem jafnframt kennir sig við jafnaðarmennsku.

Frú forseti. Helmingur heimila nær ekki endum saman. Skuldaúrræðin hafa ekki og munu ekki leysa úr vanda þessa fólks. Á meðan við erum með verðtryggingu mun þeim fjölga sem ekki ráða við skuldabyrðina. Það er staða sem býr til væntingar um leiðréttingu á höfuðstóli lána en ekki einhverjar kröfur um að það þurfi að leiðrétta. Fullyrðingar um að slíkar kröfur búi til væntingar sýna náttúrlega algjört skilningsleysi á vandanum, frú forseti.

Ég álít að skýrsla eftirlitsnefndar sé áfellisdómur yfir 110%-leiðinni og úrræðaleysinu gagnvart þeim sem eru með lánsveð.

Það voru allt of þröng skilyrði sett, m.a. af hv. félags- og tryggingamálanefnd, fyrir þá sem áttu rétt á að fara í 110%-leiðina hjá Íbúðalánasjóði, þannig að nú erum við með ólík (Forseti hringir.) úrræði hjá ólíkum lánastofnunum, eitthvað sem heitir mismunun og er ekki í samræmi við markmið norrænu velferðarstjórnarinnar (Forseti hringir.) og ætti ekki að vera það.