141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

tjón af fjölgun refa.

140. mál
[17:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og segja við hæstv. ráðherra að það hefði betur verið hlustað á þær athugasemdir sem komu fram þegar nefndin var skipuð á sínum tíma um að láta í þetta menn sem þekktu jafnvel betur til en sérfræðingarnir í Reykjavík. Þá þyrfti ekki að skipa aðra nefnd til þess að fara yfir tillögurnar sem liggja fyrir.

Það er auðvitað alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra segir, að fara verði yfir framkvæmd og skipulag veiðanna. Það er að mínu viti ekki mjög flókið og hefði ekki þurft að taka svona langan tíma. Það vita allir hvað þarf að gera, það þarf að halda refastofninum í eðlilegu jafnvægi því að ef honum fjölgar eins og hefur gerst hefur það auðvitað gríðarleg áhrif og veldur tekjutapi fyrir bændur. Síðan má velta því fyrir sér að verið er að fylla upp í votlendisskurði til þess að auka fuglalífið og þegar búið er að því kemur refurinn og étur fuglana. Það sér hver heilvita maður.

Til þess að setja hlutina í samhengi komu fulltrúar frá Húnavatnshreppi til fjárlaganefndar um daginn og þeir reiknuðu þennan kostnað og miðuðu við íbúafjölda hreppsins og færðu það yfir á höfuðborgarsvæðið. Ef þetta væri útgjaldaliður hjá Reykjavíkurborg næmi hann 1,2 milljörðum kr.