142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með fréttum að undanförnu að málefni heyrnarskertra er í brennidepli. Heiðdís Dögg Eiríksdóttir, formaður Félags heyrnarlausra, skrifar grein á visir.is í fyrradag þar sem hún fjallar um stöðu þessara mála. Heiðdís Dögg segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir fjölda skýrslna, rannsóknir og kannanir stöndum við döff enn og aftur frammi fyrir þeim vanda að fá ekki endurgjaldslausa túlkaþjónustu í daglegu lífi. Í því felst að við sem þurfum að reiða okkur á táknmál getum ekki sinnt okkar daglegu skyldum sem íbúar í fjöleignarhúsi, sem starfsmenn, sem foreldrar.

Við getum ekki verið þátttakendur með fjölskyldu okkar, hvorki á hátíðisdögum né á sorgarstundum. Við getum heldur ekki átt samskipti vegna kaupa á húsi eða bíl. Við getum ekki nýtt okkur símatíma lækna eða annarra sérfræðinga vegna veikinda barna okkar.

Við eigum á hættu að missa starfið okkar þar sem við getum ekki tekið þátt í fundum og fræðslu sem eru nauðsynleg vegna starfa okkar.“

Og hún spyr:

„Hvað gengur stjórnvöldum eiginlega til? Ný lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls mæla fyrir um að íslenskt táknmál sé jafn rétthátt íslensku. Samkvæmt sömu lögum er óheimilt að mismuna fólki eftir því hvort málið það notar.“

Stjórn Táknmálsfélagsins sendi frá sér ályktun þann 13. september sl. og í niðurlagi þeirrar ályktunar segir, með leyfi forseta:

„Táknmálsfélagið skorar hér með á ráðuneytið, stjórnvöld og alþingismenn að tryggja að áfram verði lagt fé í félagslega túlkunarsjóðinn og koma jafnframt málefnum sjóðsins í lagalegt form svo tryggt sé að táknmálsnotendur geti notið öruggrar táknmálstúlkunar við öll félagsleg tækifæri og þannig komið í veg fyrir félagslega einangrun í nánustu framtíð.“

Undir þessa áskorun tek ég heils hugar. Eins tek ég undir orð hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur sem í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær spurði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hann hygðist endurskoða ákvörðun sína og tryggja fjárveitingu til að mæta umræddri þörf og standa þannig vörð um sjálfsögð mannréttindi heyrnarlausra.