142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna.

[14:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Frú forseti. Mér finnst ákaflega mikilvægt í þessari umræðu að gera greinarmun á tvennu. Annars vegar ríkir þverpólitísk samstaða um það að reyna að afnema gjaldeyrishöftin og ná viðunandi samningum við erlenda krónueigendur og kröfuhafa gömlu bankanna eða grípa til aðgerða sem vonandi fela í sér ávinning fyrir íslenskt samfélag. Um þetta ríkir þverpólitísk samstaða. Þetta er ekki hugmynd neins eins flokks, þetta eru markmið sem ég held að allir flokkar á Alþingi stefni að.

Hins vegar hefur einn flokkur sagt að hann vilji nota þann mögulega ágóða sem verður af þessu ferli til eins málefnis sem er að niðurgreiða skuldir heimilanna. Það er umdeilt mál og mér finnst mjög mikilvægt að við látum ekki það hversu umdeilt það mál er spilla fyrir samstöðunni sem við höfum um hitt.

Mér finnst mjög mikilvægt fyrst það er svona mikil samstaða um það að reyna að afnema gjaldeyrishöftin með góðum hætti, sem felur í sér ávinning fyrir íslenskt samfélag og byggir vonandi jafnframt upp traust á íslensku efnahagslífi, að við látum samstöðuna sem ríkir hérna um það markmið verða til þess að við grípum til samráðs núna. Það sem ég er að segja er að við megum ekki endurtaka sömu mistökin og við gerðum t.d. í Icesave-málinu þar sem við áttum að efna til þverpólitísks samráðs strax á upphafsmetrunum um mjög flókna samninga. Það að það var ekki gert á upphafsmetrunum leiddi til mjög mikilla deilna síðar meir.

Hér gætum við verið að horfa á svipað. Ef samráðið verður ekki mjög ríkt akkúrat núna gætu orðið mjög miklar deilur síðar meir um alla þessa samninga og þessar aðgerðir.