142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna.

[14:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mjög svo mikilvæga mál upp í sölum þingsins og hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf í sinni fyrri ræðu. Ég á von á fleiri svörum í síðara innleggi hæstv. ráðherra.

Það sem ég staldraði kannski fyrst og fremst við var að mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara því hvernig ætti að halda áfram hinu þverpólitíska samráði sem aðrir hv. þingmenn hafa líka nefnt í ræðum sínum. Þetta er eitt af því sem skipti mjög miklu máli á síðasta kjörtímabili að sú þverpólitíska nefnd sem þá var skipuð var starfandi. Þar sátu allir við sama borð. Ég átti því láni að fagna að funda með nefndinni og fá innsýn í þá vinnu á lokametrum kosningabaráttu með öðrum formönnum stjórnmálaflokka. Ef við ætlum að halda áfram því sameiginlega markmiði og skapa hér traust og samvinnuanda, eins og hæstv. ríkisstjórn hefur boðað, þá skiptir mjög miklu að upplýst sé hér í þessari umræðu: Hver á framtíð þverpólitísku nefndarinnar að vera?

Vissulega er ljóst að það hefur tekið tíma fyrir nýja ríkisstjórn að komast af stað og verkefnin eru vissulega mörg. Hæstv. ráðherra sagði áðan að stjórnkerfið væri nokkurn veginn hið sama en maður spyr sig þá: Hvað er óljóst með framtíð þessarar þverpólitísku nefndar? Og af hverju fáum við ekki heldur skýr svör við því sem hefur verið spurt líka í fjölmiðlum: Hver á nákvæmlega að vera viðmælandi kröfuhafanna? Hver er aðkoma Seðlabankans að því og mun þar verða einhver breyting á?

Ég bíð því eftir síðara innleggi hæstv. ráðherra en ég vil líka fullvissa hann um það að ég tel alla hv. þingmenn vera reiðubúna til samstarfs í þessum málum því að þetta varðar auðvitað þjóðarhag. Eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega er þetta líklega stærsta viðfangsefni efnahagslífsins sem við er að eiga. Hér eru allir af vilja gerðir til að taka þátt í þeirri vinnu en það skiptir máli að við sitjum þar við sama borð og fáum öll sömu upplýsingar.