142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

eignarréttur lántakenda.

[14:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Umræðan er um eignarrétt lántakenda og mig langar að byrja á þremur frumforsendum umræðunnar. Eignarréttur er frumréttur sérhvers einstaklings, eignarrétturinn er nefndur fyrstur frumréttinda í grunngildum sem er að finna í 2. gr. skipulagssáttmála Sjálfstæðisflokksins.

Í annan stað er það á ábyrgð innanríkisráðherra að tryggja að lögum og dómum um húsnæðislán sé framfylgt. Það kemur skýrt fram í forsetaúrskurði nr. 71 frá 24. maí á þessu ári.

Svo í þriðja lagi er ágreiningur um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða við uppgjör slíkra skuldbindinga, það er ágreiningur um þessa lánasamninga, það virðist ekki vera neinn ágreiningur um það milli mín og stjórnarliða. Fram kemur fram í þingsályktun sem samþykkt var í sumar, nánar til tekið 5. lið þingsályktunar herra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar (Forseti hringir.) forsætisráðherra og í lögum um breytingar á lögum um meðferð einkamála, sem einnig voru samþykkt á sumarþinginu, segir að ágreiningur sé um þessa lánasamninga.

Kröfuhafar eiga kröfu á lántakendur sem eiga húseign. Eignarrétt beggja aðila þarf að verja. Umræðan snýst um leiðir til að vernda eignarrétt lántakenda. Spurningin sem ég mun halda áfram að spyrja innanríkisráðherra í haust, í vetur og í vor allt þar til svör berast … (Forseti hringir.)

(Forseti (ValG): Ég vil minna hv. þingmann á að nota þau ávarpsorð sem viðgangast og hafa tíðkast hér í yfir 100 ár.)

… er hvaða leiðir eru færar til að verja eignarrétt lántakenda án þess þó að brjóta á eignarrétti kröfuhafa.

Í fyrsta lagi: Herra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur markað stefnu sem (Forseti hringir.) frú Hanna Birna Kristjánsdóttir …

(Forseti (ValG): Ég vil biðja hv. þingmann að nota þau ávörp sem hér hafa tíðkast.)

Innanríkisráðherra hefur lögfest í sumar flýtimeðferð dómsmála um lögmæti gengis- og verðtryggingar. Það er frábært. Það á að flýta þessum málum þannig að fólk fái loksins skorið úr um réttindastöðu sína.

Í fimm ár hafa lántakendur beðið eftir stjórnarskrárvörðum rétti sínum til að fá úrlausn varðandi réttindi sín og skyldur fyrir dómstólum. Spurningin er þá: Hve lengi í viðbót þurfa þeir að bíða? Ágætt væri að fá „í besta falli“, „svona líklegast“ og þá „í versta falli“ líka.

Svo væri hægt að fara aðra leið; frú Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra getur leitað lögbanns á nauðungarsölum á heimilum landsmanna til að vernda heildarhagsmuni neytenda þar til dómstólar taka af allan vafa um lögmæti lánanna. Það er hægt og um það er kveðið á í lögum um lögbann og dómsmál til verndar heildarhagsmunum neytanda frá 2001. Í ofanálag féll dómur í Hæstarétti á síðasta ári um að heimild sé virk um lögbann til að tryggja heildarhagsmuni neytenda. Dómurinn er hérna.

Annað sem er merkilegt í þessu máli er að í þessum sama dómi áréttar Hæstiréttur rétt lántakenda á skaðabótum ef eignarnám er framkvæmt á grundvelli óréttmætra krafna kröfuhafa, hann áréttar það. Skaðabætur, sem lántakendur geta farið fram á ef lánasamningar eru fullnustaðir, ef gengið er að eigum fólks og þær sendar á nauðungaruppboð eiga lántakendur skaðabótarétt. Þetta er áréttað og einnig ástæðan fyrir því að lögbannið var ekki samþykkt. Það segir dómur Hæstaréttar.

Í þriðja lagi hérna: Fyrr á árinu féll dómur hjá Evrópudómstólnum er varðar neytendavernd, er varðar nauðungarsölur og aðra fullnustugerð. Hagsmunasamtök heimilanna hafa látið gera löggilta þýðingu á dómnum og hafa fært ráðherra eintak. Þar segir að þrátt fyrir að samningsskilmálar heimili eignaupptöku og nauðungarsölu án dómsúrskurðar — og margir þeirra að gera það — séu þeir ólöglegir ef um er að ræða heimili fólks. Dómurinn byggir að stærstum hluta á tilskipun 93/13/EBE (Forseti hringir.) sem hefur verið innleidd í íslenskan rétt. Spurning er: Hvernig á þá að ná fram þessum rétti á Íslandi?