142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

sæstrengur.

[16:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Lagning sæstrengs er stór ákvörðun og þarf að skýra mörg álitamál í tengslum við slíka ákvörðun eins og fram kom í umræðunni hér á undan. Það er hins vegar eðlilegt vegna áhættusamrar samsetningar í viðskiptamannahópi Landsvirkjunar þar sem álver eru fyrirferðarmest að ábendingar um hagkvæmni slíkrar tengingar verði skoðaðar til hlítar.

Lagning sæstrengs frá Íslandi hefði áhrif á mörgum sviðum þjóðlífsins og því væri lykilatriði að leita sáttar um svo stóra ákvörðun. Með það að leiðarljósi skipaði ég sem iðnaðarráðherra þverpólitíska nefnd á árinu 2012 með fulltrúum allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila. Má þar nefna m.a. fulltrúa frá Samtökum íslenskra sveitarfélaga, Náttúruverndarsamtökum Íslands, aðilum vinnumarkaðarins og Neytendasamtökunum.

Sú nefnd skilaði skýrslu sinni í júní sl. og komst að sameiginlegri niðurstöðu án mótatkvæða og án sérálita. Helstu kostir við lagningu sæstrengs eru sagðir vera hærra verð fyrir útflutta orku, betri nýting núverandi vatns- og jarðvarmavirkjana, bætt rekstraröryggi raforkukerfisins, betri áhættudreifing í tekjum raforkufyrirtækjanna, tækifæri á uppbyggingu annarra orkukosta, t.d. vindorku, og aukið framlaga til loftslagsmála.

Helstu ókostirnir eru sagðir vera hækkun raforkuverðs á almennum markaði og til iðnaðar, hugsanlega færri ný bein störf og aukin umhverfisáhrif. Það reynist ekki tími í þessari umræðu til þess að reifa kostina eða gallana en hvorttveggja þarf að skoða enn betur og finna lausnir á ókostunum ef til kæmi. Mætti t.d. gera langtímasamninga innan lands um lægra verð á raforku til garðyrkjubænda eða annarra atvinnugreina eða til almennings. Nefndin um raforkustreng til Evrópu leggur til að hæstv. iðnaðarráðherra heimili Landsvirkjun og Landsneti að fara í formlegar viðræður og það tel ég skynsamlegast að gera, að fá nánari upplýsingar (Forseti hringir.) og taka síðan víðtæka umræðu um málið.