142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

37. mál
[17:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir fagna fram kominni þingsályktunartillögu. Hún gefur okkur færi á, eins og hér er lagt til, að menntamálaráðherra í samvinnu við innanríkisráðherra sem fer með málefni sveitarfélaga verði gert kleift að setja á laggirnar nefnd til að skoða með hvaða hætti við getum brúað bil frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskólinn hefst, á flestum stöðum annaðhvort eins eða tveggja ára. Ég held að það sé mikilvægt, og ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað, vegna jafnréttis kynjanna en það er engu að síður mikilvægt fyrir jafnrétti barna vegna þess að þeirra er kannski jafnréttið mest að fá að njóta þess að vera, kjósi foreldrar þeirra þess, í samskiptum við önnur börn og læri að læra í gegnum leik eins og tíðkast á flestum leikskólum í dag.

Það er hins vegar erfitt og ég hefði viljað sjá og vona að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hérna eru með þátttöku annarra hagsmunaaðila í huga, að það séu væntanlega aðilar vinnumarkaðarins. Ég held að þarft sé að þeir hagsmunaaðilar komi inn í að ræða þetta jafnt með sveitarfélögum og ríki vegna þess að það skiptir líka máli fyrir aðila vinnumarkaðarins að vel sé að þessum málum staðið fyrir börn á Íslandi. Það er einfaldlega þannig. Í dag tíðkast að flestir foreldrar vinna báðir úti og þó að um sé að ræða einstæða foreldra þá á barnið annað foreldri annars staðar og væntanlega báðir aðilar í vinnu. Og þá skiptir máli að við búum þannig um öryggi barna að það sé tryggt.

Ég vil hins vegar líka að við veltum því upp, þrátt fyrir að í samfélagsumræðunni undanfarið hafi ungbarnaleikskóli verið í umræðunni á mjög neikvæðan hátt, að til eru ungbarnaleikskólar, sem hafa önnur rekstrarform en að vera reknir af sveitarfélagi, sem standa sig með mikilli prýði. Við þurfum frekar að setja eftirlitinu þær skyldur að fylgjast betur með en að útiloka ólík rekstrarform hvað þetta varðar. Eftirlitið er miklu mikilvægara en setja hér boð og bönn.

Einnig hefur verið rætt um hvort vera ætti gjaldfrjáls leikskóli. Í dag er það þannig, að ég held hjá flestum sveitarfélögum, að foreldrar taka þátt í 1/3 af því sem það kostar að hafa barn á leikskóla. Það er í kringum 35–40 þús. kr. sem foreldrar greiða svona vítt og breitt um landið, en kostnaðurinn liggur á bilinu 100–110 þús. kr., eða lá það a.m.k. á þeim tíma þegar ég var sveitarstjórnarmaður á árunum 2002–2007. Ég hef ekki trú á að sá kostnaður hafi lækkað heldur sé bilið áþekkt í dag eins og það var þá og það sé í kringum 1/3 sem foreldrar greiða.

Það þarf hins vegar að vera umhugsunarefni og getur verið einn þáttur þess að skoða verkefnið, hvort þetta skólastig á að vera gjaldfrjálst eður ei. Það er ekki lögboðið eins og hér hefur komið fram. Það er val sveitarfélaga og flest sveitarfélög veita þessa þjónustu og telja það skylt. Fáa sveitarstjórnarmenn hef ég hitt sem eru reiðubúnir þegar kemur að hagræðingu eða niðurskurði að slá af leikskólann. Sú þjónusta er því væntanlega komin til að vera.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað. Þingsályktunartillagan er af hinu góða. Það verður þarft að fá sjónarmið ólíkra aðila til þessa verkefnis. Við vitum að það er kostnaðarsamt en við vitum líka að kostnaðarsamt er að geyma mannauðinn heima þegar hann getur verið á vinnumarkaði og skapað tekjur fyrir sig og fjölskyldu sína og einnig fyrir samfélagið í heild. Þingsályktunartillagan er virkilega þess virði að við skoðum hana frekar og væntanlega verður endir hennar sá að ráðherrar sem hér eru tilnefndir skipi nefnd til að fjalla um þetta verkefni.