143. löggjafarþing — 29. fundur,  29. nóv. 2013.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

197. mál
[11:21]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa tillögu og umræður um hana. Þetta er vert að ræða og mörg sjónarmið uppi í þessu. Við sem eigum ung börn og höfum átt þekkjum það að þau vakna eins og klukka á morgnana hálfsjö, sjö oft. Þó að maður láti þau fara klukkutíma seinna að sofa, jafnvel tveim, til að reyna að sofa aðeins lengur eru þau vöknuð klukkan sjö. Er ég sem sagt að fara að vakna klukkan sex með syni mínum eftir þessa breytingu en fer væntanlega seinna að sofa af því að það er búið að seinka klukkunni? Ég er að pæla hvort þetta muni draga úr svefninum og tengslum við líkamsklukkuna, hvort þetta hafi bein áhrif eða hvort þetta snúist bara um hvenær maður fer að sofa og hvenær svefnhormónið virkar.

Svo langaði mig líka að spyrja um viðskiptatengslin, t.d. vestur um haf. Hvað segir fólk sem er í slíkum tengslum? Stundum er líka talað um að flýta klukkunni. Ég mundi leggja mikla áherslu á sérsumartíma þannig að við séum ekki að vakna þegar sólin er að byrja að setjast aftur.