144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

fjárframlög til rannsókna kynferðisbrota.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Nú er mér ákveðinn vandi á höndum þar sem ég fer ekki beint með þennan málaflokk. Ég veit það þó að eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar var að setja 500 milljónir í málefni lögreglunnar til þess að fjölga lögreglumönnum um 50 og að þau stöðugildi dreifðust víðs vegar um landið. Ég veit það líka að á stöðum eins og í Barnahúsi höfum við verið að gera betur og eyða biðlistum. Ég veit það líka að nýr lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hefur ákveðið að leggja sérstaka áherslu á kynferðisbrotamálin og að í dómsmálaráðuneytinu hefur sá málaflokkur fengið þá athygli sem hann verðskuldar. Það sem hér er um að ræða er að það eru að falla niður tímabundin framlög og fjármunir eitthvað að færast til en ég hygg að við séum öll, óháð flokkslínum, sammála um að þetta er málaflokkur sem þarf að fá aukna athygli, sérstaklega borið saman við fyrri tíð. Á undanförnum árum höfum við séð að þarna hefur í gegnum tíðina víða verið pottur brotinn. Sanngirnisbæturnar sem greiddar hafa verið út á undanförnum árum eru til vitnis um ný viðhorf og aukna áherslu á að viðurkenna að við höfum ekki alltaf haft þessa hluti í lagi í gegnum tíðina. Og inn í framtíðina, næsta ár og árin þar á eftir, verður þess gætt að þessi málaflokkur, eins og aðrir sem lögreglan sinnir, fái það fjármagn sem nauðsynlegt er.