144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

hafnalög.

5. mál
[12:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get ekki sagt að ég hafi á hraðbergi lausn á þessu máli en þetta er vissulega eitthvað nýtt sem við erum að glíma við. Við vitum að þróunin í fiskeldi er ansi hröð og það magn sem á eftir að verða framleitt með þessum hætti í eldi, hvort sem það er lax eða eldisfiskur, bleikja eða hvað það er — þetta er á blússandi ferð og ég þekki það vel frá því svæði sem ég þekki best, Vestfjörðum, og auðvitað annars staðar líka, á Austfjörðum er verið að auka eldi.

Ég tel að við þurfum að setja á fót nefnd þeirra aðila sem eiga hlut að máli og reyna að ná utan um þetta. Menn þurfa að vanda sig. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns er þetta ekki aðeins um eldi á fiski, hvort sem er lax eða bleikja eða annað, heldur er þarna kræklingur og fleiri afurðir sem gætu fallið undir þetta sem falla kannski ekki undir hefðbundið aflagjald af veiddum fiski.

Ég mundi leggja til ef ég hefði eitthvað um þetta að segja, ég er ekki í hinni ágætu hv. umhverfis- og samgöngunefnd, að þarna þyrftu að koma að málum sem fyrst þeir fagaðilar sem gjörla þekkja til og koma með tillögur til okkar til þess að fá sem fyrst einhverja niðurstöðu um hvers konar gjaldskrá yrði þarna á ferðinni, til að halda utan um þetta stóra vaxandi mál sem á eftir að skapa þjóðinni miklar tekjur í framtíðinni. (Forseti hringir.)