145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi málsmeðferðarhraðann á þessu máli. Frumvarpið var lagt fram í lok september þannig að það er búið að liggja síðan hér inni og var mælt fyrir því í byrjun október. Það hefur sem sagt verið til umfjöllunar í nefndinni í sléttan mánuð. Það er kannski rétt að árétta að það er ekki svo mikill hraði á málsmeðferðinni.

Hitt er annað mál, að löggjafinn sjálfur gerði það að skilyrði síðastliðið sumar að þeir aðilar sem tilgreinir væru sem skattskyldir í lögum um stöðugleikaskatt — til að þeir geti fallið utan þess skattskyldusviðs þá setti löggjafinn sjálfur það skilyrði að þeir skyldu hafa lokið nauðasamningum og fengið staðfestan nauðasamning frá héraðsdómi fyrir áramót. Það lá svo sem fyrir í sumar við afgreiðslu laga um stöðugleikaskatt að það gæti verið á brattann að sækja, ekki síst að teknu tilliti til málsmeðferðarhraða dómstóla. Það liggur fyrir að þau slitabú sem eru nú að reyna að ljúka slitum með nauðasamningum við kröfuhafa þurfa að boða kröfuhafafund og fá nauðasamning staðfestan af hálfu allra kröfuhafa. Slík boðun tekur margar vikur. Eftir það þarf að leggja málið fyrir dómstóla. Eins og staðan er í dag, miðað við þær dagsetningar sem fyrir liggja, blasir við að það er nánast útilokað að héraðsdómur nái að staðfesta nauðasamninga, verði það niðurstaðan, fyrir (Forseti hringir.) áramót. Þess vegna er afgreiðsla þessa máls með þessum hætti í dag.