145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er víst hraði á þessu máli því að það að komu inn á milli umræðna gríðarlega umfangsmiklar breytingar sem ekki voru sendar út til umsagnar. Hér í dag, rétt fyrir klukkan fjögur, lágu þessar breytingartillögur ekki fyrir. Þær voru væntanlega búnar til í fjármálaráðuneytinu en lagðar fram rétt áðan af nefndinni. Við höfðum ekki séð þær áður en kallað var inn á þennan þingfund. Það er hraði, nema hv. þingmaður hafi annan skilning á því.

Þá er rétt að taka fram að þeir hv. þingmenn hér inni sem eru fylgjandi þessu máli greiða atkvæði með því að greitt verði fyrir stöðugleikaframlagsleiðinni án þess að vita hvort hún ógni greiðslujöfnuði, án þess að vita hver áætlun um afnám hafta verður og hver kjör almennings á Íslandi í gegnum lífeyrissjóði, fyrirtæki og sig sjálfa verða í kjölfarið gagnvart höftum. Þetta eru ekki óskyld mál. Þetta er fullkomin forsenda þess að hægt sé að fara þá leið sem við fáum ekki almennilegar upplýsingar um.

Ég bið hv. þingmenn að hafa það í huga að þegar þessu máli lýkur hér þá hafa þeir ekki frekari aðkomu að málinu til þess að hafa taumhald á ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Það er kannski ekki hugmynd stjórnarliða hér að þeirra sé að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu heldur að lúta bara í gras og gera eins og þeim er sagt og láta bjóða sér upp á breytingartillögur sem þessar, sendar hingað inn til umræðu án þess að þeir hafi náð að kynna sér þær og ætla stuttu síðar að greiða um þær atkvæði. Þið eruð að fjalla um gríðarlega þjóðarhagsmuni og ættuð að hugsa alvarlega ykkar gang.