145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[21:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það mál sem við afgreiddum áðan fór í gegnum svolítið dæmalaust ferli. Það var unnið mjög hratt, fólk var mjög upptekið í því þannig að ég held að það sé allt í lagi að íhuga að taka mið af því. Að því sögðu ætla ég ekki að kvarta undan því að hér sé kvöldfundur um þetta mál. En mér þætti mjög vænt um að vita hversu lengi standi til að hafa þann fund vegna þess að það getur skipt verulegu máli upp á það hvernig við nýtum okkar tíma, sér í lagi þegar við erum langt fram á kvöld eins og við vorum í gær og aftur núna, mikið til í sama málinu, þá hjálpar mikið að vita fyrir fram hversu lengi við verðum hérna. Ég verð að segja að eitt af því versta við þessa kvöldfundahefð er að vita ekki hvenær við erum búin. Ef hægt er að laga bara það held ég að það yrði mikil bót í máli.