149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

[10:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svarið. Ég get ekki alveg sagt að ég beinlínis hlakki til að sjá frumvarpið því að mér heyrist vera einhvers konar hik á ráðherranum í þessu, sem ég er ekki að heyra hér í fyrsta sinn. En við skulum sjá.

Eins og ég gat um og eins og ráðherra vék að sömuleiðis þá er þingviljinn í þessu máli mjög eindreginn og skýr. Ég vil þess vegna nota þessa litlu stund sem ég hef hérna til að spyrja ráðherra viðbótarspurningar, hvort það sé ekki örugglega gert ráð fyrir því í frumvarpi til fjárlaga fyrir komandi ár að til sé fyrir þeim kostnaði sem af þessu hlytist á næsta ári.