149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

kirkjujarðasamkomulag.

[10:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Hið svokallaða kirkjujarðasamkomulag sem gert var milli ríkisins og þjóðkirkjunnar árið 1997 fól í sér að í skiptum fyrir hinar ýmsu jarðir, sem enginn veit reyndar nákvæmlega hverjar eru, myndi íslenska ríkið greiða Biskupsstofu og Kristnisjóði fjárhæðir sem skilgreindar eru m.a. sem launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Engin tímamörk eru á þessum greiðslum, þ.e. tímasetning þegar ríkið getur hætt að greiða.

Verðið fyrir jarðirnar sem ríkið á að hafa eignast er tölustafurinn átta á hlið, sem táknar óendanleika. Þessar jarðir voru sem sé bókstaflega óendanlega dýrar.

Þessi samningur er svo stórfurðulegur að ég get ekki ályktað annað en að það hafi verið meðvituð ákvörðun þeirra sem gerðu hann að svipta kynslóðir framtíðarinnar möguleikanum á því að breyta algjörlega um kirkjuskipan með stjórnarskrárbreytingu og tilheyrandi lagabreytingum einum saman.

Nú standa yfir samningaviðræður milli hæstv. fjármálaráðherra og kirkjunnar um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju. Ég hef nokkrar áhyggjur af þeim vegna þess að sporin hræða. Ég vil sérstaklega taka fram að ég óska ekki eftir samningsafstöðu ráðherrans og skil mætavel hvers vegna ekki er mögulegt að veita hana opinberlega. En ég ætla að leyfa mér að spyrja að atriði sem ég tel ekki undir neinum kringumstæðum eiga að vera hluti af samningsafstöðu eins eða neins. Það er hvort endurfremja eða festa eigi enn betur í sessi þau grundvallarmistök sem gerð voru árið 1997, þ.e. að fá tæmandi eign eða auðlind, nefnilega jarðir, í skiptum fyrir ótæmandi fjármögnun.

Ég spyr hæstv. ráðherra að tvennu: Fela samningaviðræður við ríkið við kirkjuna í sér að festa í sessi það fyrirkomulag að ríkið sé varanlega skuldbundið til að fjármagna kirkjuna í skiptum fyrir tæmandi eignir? Í öðru lagi: Mun Alþingi þurfa að staðfesta samningana ef af þeim verður, ýmist með lagabreytingum eða ályktun?