149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

kirkjujarðasamkomulag.

[10:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi aðkomu þingsins verð ég að játa að ég er ekki með svarið alveg á hreinu þar sem ég stend hér og nú. Ég hafði talið að viðræður við þingið byggðu á heimildarákvæði í fjárlögum til þess að ganga frá samningunum. Ef svo er sé ég ekki að gert sé ráð fyrir því að samningurinn sem slíkur komi hingað, þó að fjárheimildirnar sem af samningsskuldbindingum leiða, séu ávallt háðar samþykki þingsins.

Að öðru leyti má alveg velta því fyrir sér hvort það sé réttmæt ályktun hjá hv. þingmanninum að hér sé mismunað í þágu eins trúfélags umfram annað þar sem um er að ræða gagnkvæman gjörning á sínum tíma — sama hvað mönnum finnst um efnisatriði samningsins sem fólust í því að jarðir fóru til ríkisins og á móti kom skuldbinding um að standa undir tilteknum greiðslum. Það var matsatriði þess tíma. Ef menn ætla með varanlegum hætti (Forseti hringir.) að breyta því eðli samningsins þyrfti væntanlega að koma einhver risastór upphæð til þess að gera upp framtíðina.