149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

drengir í vanda.

[11:08]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti.

Táp og fjör og frískir menn

finnast hér á landi enn,

þéttir á velli og þéttir í lund,

þrautgóðir á raunastund.

Það er vert að hefja þessa umræðu um drengina okkar á upphafslínum ljóðs Gríms Thomsens „Á fætur“ því að það er einmitt það sem ég er að kalla eftir með þessari umræðu, að við rísum á fætur til hjálpar drengjum í vanda. Sannarlega virðist svo vera að hið unga karlkyn eigi í mikilli tilvistarkreppu hér í okkar ágæta landi.

Um leið og ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu vil ég leggja áherslu á að ég taldi nauðsynlegt að beina máli mínu til hennar, jafnvel þótt vel mætti rökstyðja aðkomu annarra ráðherra. Hér er um svo aðkallandi vanda að ræða og svo mikið alvörumál að nauðsynlegt er að það nái eyrum og athygli hæstv. forsætisráðherra.

Ég gæti varið tíu eða 20 mínútum í upplestur úr talnagögnum þar sem slæm staða drengja og ungra manna kemur glöggt fram en stikla hér einungis á stóru. Ef litið er til tíðni sjálfsvíga er hlutfall karla 87% á árinu 2015 í yngsta aldurshópnum, 15–35 ára. Komið hefur fram að lestrarvandi drengja við útskrift úr grunnskólanum er geigvænlegur. Eða sú staðreynd að ungir menn eru einungis 30% þeirra sem ljúka meistaragráðu úr háskólanum og karlmenn eru nú einungis 36% þeirra sem stunda háskólanám. Nú, eða notkun hegðunarlyfja meðal drengja í grunnskólunum sem er meira en helmingi algengari en meðal stúlkna á sama aldri. Þá er brottfall drengja úr framhaldsskólum mun meira en hjá stúlkum. Aukning á nýgengi örorku hefur á undanförnum árum verið miklu örari meðal yngri karla en kvenna. Og þannig mætti áfram telja.

Hlutfall karlkennara í grunnskólum hefur farið lækkandi áratugum saman og er nú komið niður í 17%. Hlutfall karla sem eru skólastjórar í grunnskólum hefur farið úr því að vera 65% í þriðjung á síðustu 20 árum. Kannski mætti gleðjast yfir auknum hlut kvenna þar. Ef rætt er um forsjá yfir börnum er langalgengast að foreldrar hafi sameiginlega forsjá eftir sambúðarslit en þegar forsjáin fer til annars aðilans er hlutfallið: Einn faðir er með forsjá barnsins síns á móti 58 mæðrum. Hlutfall karla meðal þeirra sem hljóta óskilorðsbundna dóma og ljúka refsivist er um og yfir 90%. — Það er sama hvar drepið er niður fæti. Það er eitthvað mikið að.

Herra forseti. Á þessari upptalningu, sem þó er einungis sýnishorn af þeim staðreyndum sem blasa við okkur, um ástandið meðal hins unga karlkyns, sést vel að við svo búið verður ekki unað. Við getum ekki sætt okkur við að ungir drengir og ungir menn finni sig ekki og líði illa og að við missum þá í aðgerðaleysi, afbrot, vímuefnaneyslu, örorku og því miður jafnvel sjálfsvíg. — Hvað er að?

Herra forseti. Ég vil varpa hér fram nokkrum hugleiðingum eða tilgátum inn í þessa umræðu: Skortir drengi föðurímynd, heima við og í skólunum? Margir vilja halda því fram. Feðurnir eða karlarnir séu ekki til staðar, vinni of mikið, séu fjarverandi. Kennarar séu langoftast kvenkyns, tímaleysi foreldra, börnum sé ekki sinnt, ekki sé á þau hlustað því að foreldrarnir séu svo uppteknir við að lifa í núinu einhvers staðar úti í bæ — í ræktinni, að hitta vinina, fara á námskeið, í saumaklúbbinn, í leshringinn, að funda í mikilvægum félögum. Börnin eru áhorfendur að lífi foreldranna.

Getur verið að sú oft á tíðum neikvæða og á stundum harkalega umræða sem beinist að karlkyninu, og verið hefur áberandi á síðustu árum, hafi hér áhrif? Hver eru áhrif þeirrar umræðu á sjálfsmynd hins unga karlkyns? Það er verðugt rannsóknarefni. Mikil tölvunotkun? Einhverjir segja að það sé tölvum að kenna hvernig komið sé. Það sé hangið á samskiptamiðlunum, í tölvuleikjum. Eða getur verið að marga drengi vanti hlutverk, að þeir fái þannig trú á sjálfa sig? Til skýringa má nefna að hér áður fyrr fóru ungir menn að byggja yfir fjölskylduna og voru vart orðnir tvítugir. Þar var hlutverkið skýrt, fyrirvinnuhlutverkið, að geta bjargað sér, haft möguleika og getu til að hreyfa sjálfir við lífi sínu.

Og hver eru áhrif klámvæðingarinnar á óharðnaða unglingsstráka? Getur verið að kynvitund þeirra sé bjöguð á einhvern hátt? Að hugmyndir þeirra um að þeir standi sig ekki í kynlífinu hafi hér áhrif? Að þeir verði þannig óhamingjusamur og óvissir og standi í þeirri trú að þeir séu til alls vanmáttugir? Eða að strákarnir finni sig ekki skólanum? Því hefur oft verið kastað fram að skólarnir séu fremur sniðnir að stúlkum og þeirra styrkleikum. Aukið verknám er klárlega eitt af því (Forseti hringir.) sem vinna þarf betur að.

Herra forseti. Það verður athyglisvert að heyra hvaða sýn hv. þingmenn hafa á þessi mál og fróðlegt að hlusta á innlegg hæstv. forsætisráðherra í þessum efnum hér á eftir.