149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

drengir í vanda.

[11:39]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Sf):

Forseti. Krakkarnir okkar af öllum kynjum eru flest ótrúlega flott og góð, mun betri og stilltari og standa sig betur en mín kynslóð gerði á sama aldri. Eitthvað er samt að vegna þess að þeim virðist ekki líða nægilega vel og tölur sýna að þeim líður alltaf verr og verr. Við þurfum að skoða það nánar. Mig grunar að pressa sé á þeim á að fara inn í hlutverk sem eru ekki raunhæf. Við sjáum það með glansmyndum sem birtast víða. Samfélagsmiðlar eru oft nefndir en það er líka einhver tilbúin gerviveröld þar sem fólk er „fótósjoppað“. Ég held að þetta sé miklu víðar en það.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa eina setningu sem féll í þessum sal í kringum aldamótin:

„Ungmennin sem eru á íþróttavellinum eða í íþróttahúsinu eru bólusett gegn ávana- og fíkniefnum.“

Þetta var sagt í þessum sal. Þetta er ein af þeim gervilausnum sem við erum alltaf að reyna að finna. Það er ekki þannig. Það er algjörlega óumdeilt að krakkar sem eru í virkni og heilbrigðum samskiptum vegnar miklu betur en börnum sem eru það ekki og eru afskiptalaus, en íþróttaiðkun er ekki bólusetning fyrir því að börn villist af leið eða líði illa. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort sú afreksstefna sem lagt var upp með í mörgum íþróttagreinum sé til góðs. Við sem sitjum hér inni þekkjum örugglega öll litla stráka sem ætla að verða atvinnumenn í fótbolta einhvern tímann. Á þeirra viðkvæmasta aldri, á unglingsaldrinum, rennur upp fyrir þeim að það mun aldrei verða og ef sjálfsmynd þeirra er mjög bundin við það eina hlutverk sem þeir ætla að verða góðir í og hún fellur er kannski ekkert mikið eftir.