149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur o.fl.

302. mál
[13:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og fleiri lögum. Með frumvarpi þessu er lagt til að innheimta opinberra gjalda, sem tollstjóri annast nú, verði færð til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2019. Ekki eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi innheimtu opinberra gjalda sem sýslumenn annast. Eins og menn þekkja hefur innheimtan á höfuðborgarsvæðinu fram til þessa verið hjá tollstjóra en sýslumenn hafa annast hana í öðrum kjördæmum víða um landið.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar koma m.a. fram áherslumál um bættan ríkisrekstur og að almannaþjónusta verði markvisst bætt með því að setja á fót rafræna þjónustugátt þar sem landsmenn geti á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og sinnt þeim erindum sem beinast að stjórnvöldum. Þar kemur einnig fram markmið um að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og lögð áhersla á að stjórnsýslan sé skilvirk og réttlát. Til að fylgja þessum áherslum er stefnt að öflugri rafrænni stjórnsýslu og fjölbreyttum sjálfsafgreiðslumöguleikum fyrir gjaldendur, m.a. á þjónustugáttinni island.is.

Miklar breytingar hafa orðið á íslenska skattkerfinu sem og starfsemi og hlutverki skattyfirvalda. Þróun í upplýsingatækni og gervigreind hefur gjörbylt vinnulagi og afköstum í skattframkvæmdinni og aukið gæði hennar til muna. Það kallar á betri rekstur og þjónustu með samlegð og hagræðingu að leiðarljósi. Umtalsverð tækifæri eru til að bæta þjónustu og styrkja stjórnsýslu varðandi verkefni tollstjóra og ríkisskattstjóra með því að samþætta starfsemi stofnananna betur þannig að álagning og innheimta opinberra gjalda verði einfaldari, skilvirkari og hagkvæmari. Umhverfið er fjölbreytt og má nefna alþjóðlegar áskoranir í rafrænni verslun sem sífellt verður fyrirferðarmeiri. Með samþættingu ríkisaðila er stefnt að meiri árangri þar sem öll þjónusta verður á einum stað almenningi, starfsmönnum, ríkisaðilum og samfélaginu til hagsbóta.

Ekki er gert ráð fyrir að störf verði lögð niður við tilfærsluna heldur verði þau flutt frá tollstjóra til ríkisskattstjóra. Óhjákvæmilegt er hins vegar að skipulag starfseminnar þróist í tímans rás og að skipulaginu verði þannig háttað að saman fari góð nýting fjármagns og skilvirk skattframkvæmd. Til framtíðar litið þarf að skapa starfseminni umgjörð sem stuðlar að hagkvæmni, samþættingu og samlegð. Í því sambandi er nauðsynlegt að huga að skipulagningu húsnæðismála en ljóst er að af því verður ekki á allra næstu misserum.

Með tilfærslu á innheimtu opinberra gjalda frá tollstjóra til ríkisskattstjóra er stefnt að aukinni skilvirkni og hagkvæmni. Mikil einföldun felst í því að hafa álagningu og innheimtu opinberra gjalda á einni hendi. Með því má gera ráð fyrir að þjónusta við skattaðila og gjaldendur verði árangursríkari og betri, sem mun aftur leiða til enn betri innheimtuárangurs og þar með tekjuöflunar hins opinbera. Miklir möguleikar eru fyrir hendi til að samnýta tölvu- og upplýsingakerfi og bæta alla verkferla sem og árangur og skilvirkni í störfum skattyfirvalda. Þannig má reikna með að samfélagslegt hagræði og fjárhagslegur ávinningur verði meiri en áður sem efla mun starfsemina og leiða til lækkunar á kostnaði við rekstur skattkerfisins í heild án þess að það bitni á þjónustu og afköstum.

Gert er ráð fyrir því að sá kostnaður sem til fellur við tilfærsluna rúmist innan fjárheimildar í málaflokknum skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla. Með þessu frumvarpi leggjum við sem sagt til að sá aðili sem annast álagninguna taki einnig að sér innheimtuna.

Að því sögðu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.