149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:08]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir spurninguna og fyrir þann áhuga sem hann sýnir málinu. Mig minnir að í mars síðastliðnum hafi ég bent á að samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja sé það svo að eldri borgarar eru yfirleitt virkir á vinnumarkaði fram að 73 ára aldri en þá lækkar kúrfan aðeins.

Það er rétt að taka fram að í nefnd, sem við hv. þingmaður sátum báðir í á sínum tíma, um endurskoðun almannatryggingakerfisins, var fjallað um hægt væri að hækka lífeyristökualdur í einhverjum skrefum allt upp í áttrætt. Flutningsmenn þessa frumvarps töldu einfaldlega skynsamlegt að taka það skref. Ég get hins vegar sagt fyrir mig prívat og persónulega að ef hv. þingmaður, sem er líka formaður efnahags- og viðskiptanefndar, myndi afgreiða málið frá nefnd sinni með þeirri breytingu að miðað yrði við 75 ára í stað 73 ára myndi ég ekki setja mig upp á móti því.

Hins vegar töldum við sem flytjum málið rétt að við tækjum þetta hugsanlega í tveimur skrefum, þannig að menn gætu öðlast einhverja reynslu á því hvernig þetta kæmi út á þeim þremur árum og við gætum þá breytt því í 75 ár ef við teldum það er rétt.

En eins og ég sagði áðan tel ég í sjálfu sér mjög nauðsynlegt að fyrirhuguð tillaga okkar Miðflokksmanna um að atvinnutekjur rýri ekki ellilífeyristekjur verði samþykkt nú við 2. umr. fjárlaga og þætti vænt um ef hv. þingmaður myndi taka höndum saman með okkur í því efni þegar þar að kemur.