149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:10]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Við búum svo vel í efnahags- og viðskiptanefnd að ég held við séum ágætlega mönnuð, m.a. formanni Miðflokksins, hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Ég geri ráð fyrir því að hann muni fylgja málinu ágætlega eftir.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að við sátum saman í endurskoðunarnefnd um almannatryggingar. Ekki komust allar þær tillögur til framkvæmda, því miður, en eftir situr að við höfum þó fært réttinn til að fresta lífeyristökualdri upp í áttrætt. Við færðum hann líka niður í 65 ár, þannig að sveigjanleikinn er til staðar. Hægt er að hefja töku lífeyris að helmingi og halda áfram að vinna helminginn.

Við stöndum líka frammi fyrir því að við þurfum almennt að taka þá umræðu að hækka eftirlaunaaldur allra. Eftir því sem árin líða verður það erfiðara og þarf að taka í stærri skrefum. Við vorum að velta fyrir okkur 24 árum. Ég var ósammála því að færa eftirlaunaaldurinn upp í 70 ár á 24 árum. Ég taldi að allt of hægt gengi og að nauðsynlegt væri að fara upp í 70 ár á 12 árum. Ég hygg að við ættum í rauninni að fara að velta því fyrir okkur hvort við eigum og þurfum á næstu 30 árum að hækka eftirlaunaaldur upp í 75 ár. Ég hygg að það sé staðreyndin. Við blasir nefnilega að ævin er alltaf að verða lengri og heilsan betri, sem betur fer. Þeir sem eru að fæðast í dag geta gert sér vonir um að ævi þeirra verði kannski 110 ár. Það sér hver maður að ekki gengur að stór hluti ævinnar sé utan vinnumarkaðar. Við þurfum að byggja upp kerfið og hefja þá umræðu og taka (Forseti hringir.) ákvarðanir í dag sem eru tiltölulega einfaldar en geta orðið sársaukafullar eftir 10–15 ár.