149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:15]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta framsögu um þetta mál. Sannast sagna man ég ekki í svipinn hvort ég tók þátt í umræðum um það síðast. Ég var ansi oft í þessum ræðustól á því þingi og vel getur verið að ég sé að rugla saman málum. Mér finnst tillagan allrar athygli verð og hugsunin mjög góð á bak við hana. Mig langaði að eiga orðastað við hv. þingmann á ekki ósvipuðum nótum og í andsvari áðan. Verandi sagnfræðimenntaður finnst mér dálítið gaman að horfa aftur í tímann og velta því fyrir mér af hverju hlutunum var komið á, í þessu tilfelli ellilífeyrisaldri og lífeyristöku. Þær aðstæður sem þá voru eru gjörbreyttar, alla vega fyrir suma, þegar um var að ræða verðskuldaða hvíld eftir langa starfsævi, að hafa þau réttindi að geta tekið því rólegar. Auðvitað er það þannig með marga enn þá, en það eru, eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á í framsögu sinni, æ fleiri sem kjósa að halda áfram að starfa.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki alveg á hreinu að hugsunin hér á bak við sé sú að þetta sé möguleiki, það sé á engan hátt þannig að menn verði að vinna fram að þessum aldri. Eins og ég segi þá kjósa sumir að vinna lengur, aðrir þurfa, vegna erfiðra starfa og langrar starfsævi í þeim, hreinlega á því að halda að hætta. Ég kem kannski betur inn á það þegar ég er búinn að fá betri skýringar hjá hv. þingmanni með það, sem mig grunar, þ.e. að fólk hafi valið, að lögð sé áhersla á sveigjanleikann sem hv. þingmaður ræddi hér áðan við hv. þm. Óla Björn Kárason.