149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:19]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið hjartanlega undir síðustu orð hv. þingmanns. Þess vegna langar mig að ræða við hv. þingmann um þá tölu sem sett er fram í frumvarpinu. Það var aðeins rætt í andsvari áðan þar sem hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi jafnvel töluna 75. Það er ekki bara til að trompa heldur vegna þess að ég velti því raunverulega fyrir mér hvort við yfir höfuð eigum að hafa efri mörk, hvort það eigi ekki einfaldlega að vera þannig að ef fólk er fullfrískt megi það vinna sama hversu mörg ár það hefur lifað. Ég átta mig á því eða þykist vita að hér sé verið að stíga skref og vildi kannski að hv. þingmaður kæmi örlítið inn á það. Það sem ég hef heyrt á ræðu hv. þingmanns bendir til þess að hann sé ekkert að hugsa sér einhver endanleg efri mörk, heldur mjög tilbúinn í að skoða það.

Mér hefur alltaf komið það pínulítið spánskt fyrir sjónir að fólk sem vill vinna, og er jafnvel í þeirri stöðu að vinnuveitandinn vill halda viðkomandi í vinnu, geti það ekki vegna laga sem við höfum sett um að ef ákveðin tala á blaði nær ákveðinni stærð megi það ekki lengur. Ég hef séð fyrir mér kerfi þar sem hver og einn má vinna eins og hann getur lagt fram og hafa má starfsmenn í vinnu eins lengi og talið er að þeir skili góðu verki. En að hafa sveigjanleika, að fólk sem komið er á ákveðinn aldur geti valið að minnka við sig, taka hluta ellilífeyris eða fara fyrr á ellilífeyri o.s.frv., finnst mér líka gríðarlega mikilvægt.