149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:29]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég myndi ekki segja að ég væri mótfallinn þessu frumvarpi en ég er ekkert sérstaklega hrifinn af því. Ég er hins vegar tiltölulega samþykkur því að heimila mönnum að starfa lengur. Þá vil ég ekkert endilega binda þetta við 73 ára aldur. Það er ekki nóg að heimila það, heldur verður vinnuveitandinn líka að hafa áhuga á að framlengja.

Ríkisstarfsmenn hafa gífurleg réttindi umfram aðra starfsmenn í landinu. Það er ekki einu sinni hægt að segja mönnum upp sem standa sig ekki sérstaklega vel, eru kannski engir sérstakir starfsmenn. Ég hef grun um að margir yfirmenn á þessum stofnunum bíði hreinlega eftir að menn verði sjötugir. Það er ljótt að segja þetta en ég veit til þess. Ég hefði sjálfur miklu meiri áhuga á því að vera ekki að binda þetta í einhvern tíma heldur leyfa yfirmönnum að semja áfram við starfsmenn sem þeir telja að hafi mikið fram að færa og þá væri alveg óþarfi að hafa það bundið við aldur.

Framsögumaðurinn talaði mikið um að háskólakennarar og jafnvel lögfræðingar eftir sjötugt hefðu mikið fram að færa. Það held ég að sé alveg undantekning, því miður. Ég held að í þeim störfum séu menn eiginlega alveg orðnir úreltir um sjötugt þótt þeir hafi fulla starfsorku. Þá geta menn auðvitað gert eitthvað annað. Það er ekki endilega bundið við það að menn þurfi að vera í sama starfinu endalaust og ég held að það sé engum hollt að vera í sama starfinu endalaust, allra síst opinberum starfsmönnum sem fara oft og tíðum með talsvert vald. (HHG: Oft þingmenn.) Þingmenn eiga ekki að vera mjög lengi heldur enda hefði mér aldrei dottið í hug að fara ungur maður á þing, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. [Hlátur í þingsal.] Ég held að menn eigi ekki að vera lengi á þingi. 12 ár þar eru í mínum huga hámark.

Ég held að menn missi svolítið móðinn, ég tala nú ekki um í kennslu. Hv. þingmaður talaði um kennara í háskóla sem hefðu ýmislegt fram að færa. Hins vegar eru auðvitað margir sem hafa eitthvað fram að færa þó að þeir séu sjötugir og væri mikill missir ef þeir færu úr starfinu. Þá fyndist mér að ætti að vera heimild til að gera einhvers konar ráðningarsamning við viðkomandi án þess að hann nyti allra réttinda opinberra starfsmanna, liðka aðeins til í þessu. Ég er ekki viss um ávinninginn af því að hafa þetta með þeim hætti sem hér er lagt til, sem er að vísu bara heimild, en það er starfsmaðurinn sem ræður því samkvæmt þessu frumvarpi ef ég skil það rétt. Mér finnst að þetta eigi ekki bara að vera mál starfsmannsins heldur stofnunarinnar sem slíkrar.

Ég held að nefndin verði að fara betur yfir þetta og jafnvel finna einhvern flöt þar sem menn sem eru orðnir eldri hafa áhuga á að vinna og getu til þess og vinnuveitandinn vill hafa hann og telur sig hafa gagn af honum. Það má tryggja einhvern veginn að það ráðningarsamband megi vara lengur og þá vil ég ekkert endilega binda þetta við 73 ár. Þá þurfum við ekki að binda það við aldur eða við getum kannski bundið hann við 100 ár. Það sem ég er að velta fyrir mér í málinu er að skoða þetta betur því að ég er, eins og ég segi, svolítið hlynntur því að menn geti verið lengur en mér finnst þetta flóknara en bara að setja svona ákvæði inn í. Ég vildi bara koma þessu að.