149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:36]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fæstir starfsmenn eru á fimm ára samningi. (ÞorS: Allir embættismenn.) Já, en þeir eru langfæstir opinberra starfsmanna. Vissulega hefur framkvæmd uppsagna á opinberum starfsmönnum gengið bölvanlega. Maður þarf ekki annað en að líta í dómasafnið til að sjá hvað mönnum hefur gengið það illa. Ég hef sjálfur lengi verið þeirrar skoðunar að þessi almennu, miklu réttindi opinberra starfsmanna eigi að vera liðin tíð í almennum störfum. Þetta er venjulegur vinnumarkaður að mörgu leyti. Ég held að menn ættu frekar að fara þá leið en að láta duga að ráða menn til fimm ára. Við erum ekki að fara að ráða ríkisstarfsmenn almennt til fimm ára, það á bara við æðstu embættismenn ríkisins þannig að það er annað mál.

Miðað við lögin frá 1996 eru gerðar ríkar kröfur til uppsagna. Ég veit alveg og þekki það sem opinber starfsmaður fyrstu fimm ár starfsævi minnar að þar voru menn sem ollu ekki starfinu. Þeir höfðu ekki gert neitt af sér, aldrei verið brotlegir, en þeir voru bara lélegir starfskraftar. Ef þeir hefðu síðan sjálfkrafa heimild til 73 eða 75 ára og gætu ráðið hvort þeir færu — ég held að þurfi að hugsa þetta betur, hv. þingmaður.