149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var í starfi sem opinber starfsmaður sem hafði m.a. það starf með höndum að færa menn til í starfi, leggja niður störf þeirra eða segja þeim upp og tel, og held að ég geti alveg sagt það, að lagabókstafurinn í lögum nr. 70/1996 sé alveg nógu skýr. Það er hins vegar spurning hvort einstakir forstöðumenn í ríkisstofnunum o.s.frv. hafi einfaldlega leitað sér aðstoðar ef þeir hafa ekki haft nóga þekkingu á þessum lögum til að framkvæma bókstaf þeirra.

Ég vil hins vegar gera athugasemd við orð hv. þingmanns um að það eru ekki bara æðstu starfsmenn ríkisins sem eru embættismenn. Það eru líka prestar, tollverðir, lögreglumenn og skrifstofustjórar. Ég gæti haldið svona áfram. Þetta er þó nokkur hópur þannig að ég segi bara aftur: Ef menn hefðu tekið strax eða fljótt á þeirri heimild sem er í lögum nr. 70/1996, um að auglýsa störf á fimm ára fresti, held ég að við værum í allt öðru andrúmslofti nú en við erum núna. Með þessari túlkun, lagaskýringu eða framkvæmd laganna eins og hún hefur verið gerð er eiginlega búið að koma óorði á það að auglýsa störf embættismanna — sem er óþarfi.

Ef menn eru aftur á móti ekki færir um að sinna starfi sínu sem almennir, opinberir starfsmenn segi ég aftur: Úrræðin eru til en kannski hefur skort á að einstakir forstöðumenn fengju aðstoð frá t.d. starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins til að vinna þessi mál, náttúrlega með því að starfsmaðurinn haldi sinni reisn (Forseti hringir.) og allt það en að menn haldi því til streitu hvernig hægt er að segja mönnum upp af því að það er alveg hægt.