149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að kveðja mér hljóðs, ekki síst í kjölfar þeirrar umræðu sem átti sér stað áðan í andsvörum og svörum við þeim um almenn réttindi opinberra starfsmanna. Mér hefur nefnilega oft þótt talað um þau af töluverðri óvirðingu og látið eins og þau séu einhver sérréttindapakki sem fólk fái við það að starfa hjá hinu opinbera. Staðreyndin er sú að í gegnum áratugi þróaðist kerfið þannig að laun voru lægri hjá hinu opinbera en á almenna vinnumarkaðnum. Til að bæta upp fyrir þann launamismun voru réttindin hins vegar meiri. Það voru önnur lífeyrisréttindi, meira starfsöryggi o.s.frv.

Þetta er ekki eitthvað sem opinberir starfsmenn drógu fram úr hatti sínum og ekki eitthvað sem var komið á fót sem sérréttindum. Það má færa rök fyrir því að því hafi verið komið á fót til að spara hinu opinbera peninga í launaútgjöldum, að launaþróun á hinum opinbera markaði yrði ekki alltaf sú sama og á hinum almenna af því að þá þyrfti í mörgum tilfellum að hækka laun, sérstaklega millistjórnenda og efri stjórnenda, í takt við það sem væri á hinum almenna markaði.

Ýmis skref hafa verið stigin til að má út muninn á milli þessara tveggja geira vinnumarkaðarins, hins almenna og hins opinbera. Við stigum skref í þessum sal fyrir að verða tveimur árum en þá voru lífeyrisréttindin jöfnuð út. Ég tók mikinn þátt í þeirri umræðu því að þar fannst mér við vera að byrja á öfugum enda, við vorum að minnka réttindin áður en við jukum við launin. Það fannst mér röng aðferðafræði. Það er alveg sama hvað hver segir — og horfi ég ekki á neinn sem situr í salnum núna, virðulegur forseti — það heyrist stundum látið eins og launamunur sé enginn. Það er alveg sama hvað hver segir með það, það er einfaldlega ekki rétt.

Ég lít á þetta góða frumvarp sem fínt skref í þá átt að jafna réttindin þannig að þeir sem vinna á hinum opinbera markaði geti unnið lengur en núgildandi lög kveða á um, alveg eins og gert er á hinum almenna vinnumarkaði. Einkafyrirtæki úti í bæ getur verið með starfsmann á launum, ef gagnkvæmur vilji er til þess, eins lengi og það vill, eins lengi og starfsmaðurinn vill vinna. Það er ekki hægt við opinbera starfsmenn. Þetta finnst mér skref í þá átt.

Þess vegna átti ég orðastað við hv. þingmann, 1. flutningsmann frumvarpsins, Þorstein Sæmundsson um það hvort yfir höfuð ætti að vera nokkur aldurstakmörkun, sem ég tel vera réttu leiðina. En ég er mjög ánægður með að hér sé stigið skref í þá átt.

Mér finnst stjórnarmeirihlutinn sem ég tilheyri núna skulda þá skoðun á opinberum vinnumarkaði sem hv. þm. Brynjar Níelsson kallaði eftir, ekki með það fyrir augum, eins og ég skildi hv. þingmann, að við ætluðum að fara að pikka út hvar réttindin væru meiri hjá hinu opinbera, að þetta væri gert til að við þyrftum einhvern veginn að ná þeim niður. Það er ekki frumforsendan að mínu mati heldur einmitt öfugt. Hver er raunverulegur mismunur á kjörum opinberra starfsmanna og hins almenna vinnumarkaðar? Ef þar hallar á, eins og ég þykist vita, opinbera starfsmenn þarf að laga það. Síðan getum við jafnað út.

Sjálfum finnst mér mjög eðlilegt að þetta sé allt jafnt, að við séum með sömu réttindi, sömu skyldur, sömu laun, séum í sömu launaflokkum, með sama orlof, sömu lífeyrisréttindi, sama hvort við vinnum hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði. Og að við séum með sömu réttindin til að vinna eins lengi og við viljum og einhver vill hafa okkur í vinnu.

Við tókum skrefið til að jafna niður á við í lífeyrisréttindum. Við skulum skoða hvort það fari ekki að jafna upp á við á móti, eins og töluvert var talað um í þingsal þegar það var gert.

Virðulegur forseti. Ég styð þetta frumvarp. Mér finnst það gott skref, eins og ég kom inn á í andsvari, en ég er sammála þeim sem töluðu áðan um að fara þurfi í heildarendurskoðun. Í mínum huga er það ekki til að sjá hvort auglýsa eigi stöður á fimm ára fresti, sem er vissulega fínt að skoða, ekki til að skoða einhverja sérstaka anga af réttindum opinberra starfsmanna heldur til að athuga raunverulegan mun á kjörum opinberra starfsmanna versus þeirra sem eru á hinum almenna markaði. Ég er til í þá vinnu.