149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður átti við eitthvað sem ég sagði eða (Gripið fram í: Nei.) eitthvað sem hv. þm. Brynjar Níelsson sagði. Af ræðu þingmann dró ég þá ályktun að svo væri ekki. En mér fannst samt rétt að koma hér upp og segja að það er ekki af neins konar virðingarleysi fyrir opinberum starfsmönnum eða réttindum þeirra sem ég myndi aðhyllast það að endurskoða þetta kerfi. Ég myndi gera ráð fyrir því að þá kæmu einmitt á móti launahækkanir. Ég veit ekki hvernig það ætti að ganga öðruvísi vegna þess að ríkið gæti hreinlega ekki ráðið fólk, held ég, á svona miklu lægri launum án þess að það kæmi eitthvað á móti.

Ég vildi bara halda því til haga að það var ekki af virðingarleysi fyrir einu eða neinu sem ég lagði mitt til. Ég sé að hv. þingmann kinkar kolli hérna úti í þingsal því til stuðnings að hann eigi ekki við mig, en mér fannst rétt að nefna það fyrir plögg sögunnar.