149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

37. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunni. Ég er mjög ánægður að heyra þau sjónarmið. Ég er líka ánægður með að finna þennan stuðning sem ég finn núna við þetta frumvarp. Ég vona að hann eigi eftir að greiða því leið í gegnum þingið.

Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar og ég er alveg sammála honum um að við þurfum heildarendurskoðun á lögum um opinbera starfsmenn, sem eru frá 1996. Ég vil hins vegar ekki að þetta mál bíði eftir þeirri heildarendurskoðun af því að það vill nú þannig til að þegar við förum í heildarendurskoðun á einhverjum stórum lagabálkum erum við oft að tala um tafir upp á 15 ár. Það eru einmitt fyrir þinginu núna tveir lagabálkar sem ég kannast aðeins við, þ.e. um landgræðslu og skógrækt. Ég veit til að þeir hafa verið í smíðum, ef við getum orðað það þannig, árum saman. Þar erum við að tala um lög sem leysa annars vegar af hendi lög frá 1955 og hins vegar frá 1960, ef ég man rétt. Ég myndi t.d. ekki kæra mig um eða vera sáttur við að mál eins og þetta, sem er réttlætismál, biði í þrjú, fimm, sjö, átta, níu ár eftir því að heildarendurskoðun á lögum um opinbera starfsmenn færi fram.

Ég segi líka það sem ég minntist á í minni ræðu, við erum í sjálfu sér búin að segja A með því að segja að lífeyristökualdur geti verið sveigjanlegur frá 65 upp í áttrætt. En hann getur bara ekkert verið upp í áttrætt hjá opinberum starfsmönnum því þeim er hent út sjötugum. Fyrst við vorum búin að segja A verðum við að segja B, til þess að það sé jafnrétti báðum megin borðs.

Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé talaði hér um starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Ég hef tekið eftir því að mjög víða erlendis er t.d. fullorðið fólk, ef við getum orðað það þannig, ráðið miklu frekar í ýmis þjónustu- og afgreiðslustörf en við gerum á Íslandi. Þetta er þó með ánægjulegum undantekningum. Ég hef t.d. minnst á að það eru fyrirtæki hér til í byggingarvörugeiranum sem hafa ráðið til sín eldri iðnaðarmenn til að afgreiða og gefa ráð, vera söluráðgjafar í sínum fyrirtækjum. Þetta þykir mér rosalega gott dæmi. Hvað er meira traustvekjandi fyrir einhvern mann sem er með 10 þumalfingur eða 20 tær, eins og sá sem hér stendur, og ætlar að fara að standa í einhverjum framkvæmdum en að geta gengið að góðum ráðum hjá góðum trésmíði eða málara við efniskaup sem hjálpar manni að áætla hvað maður þarf? Það er mjög víða sem við eigum þessa þekkingu til í fólki sem er komið af léttasta skeiði, ef við getum orðað það þannig, sem við nýtum ekki í dag. Það er þessi sóun sem mér þykir svo vond.

Nú ætla ég ekki í sjálfu sér að gera ágreining við hv. þm. Brynjar Níelsson. Ég ber mikla virðingu fyrir hans reynslu sem lögmanns og þykist viss um að hann sé búinn að taka þátt í mörgum snerrum út af því sem hann sagði, þeirri fullyrðingu hans að það væri erfitt að „losna við“ eða segja upp opinberum starfsmönnum. En ég vil samt benda á það að ef menn segja: Hér er maður sem er ómögulegur og passar ekki inn í þetta starf, en það er ekkert að honum þannig lagað, hann gerir ekkert af sér, þá eru menn samkvæmt starfsmannalögunum ráðnir í þrjá mánuði til reynslu. Ef yfirmenn sem ráðið hefur mann til starfa áttar sig ekki á því á þremur mánuðum, ég tala nú ekki um ef starfið er sérhæft eða krefjandi, að viðkomandi hentar ekki í starfið þá segir það kannski meira um yfirmanninn en þann sem ráðinn er til starfa, að mínu áliti. Hafandi verið í þeirri stöðu hjá ríkinu að þurfa að færa fólk til í starfi, segja því upp o.s.frv., þá segi ég aftur: Það er ekkert flókið að segja upp opinberum starfsmanni. Menn þurfa bara að gera það rétt og í samræmi við þau lög sem gilda. Lögin veita, ég get ekki sagt ágætissvigrúm, en svigrúm til þess að það sé hægt að færa bæði menn til í starfi og segja mönnum upp.

Hitt er svo annað mál sem kom fram í máli hv. þm. Brynjars Níelssonar um að það væri glatað að þurfa að sitja uppi með menn kannski upp í 73–75 ára aldur sem væru ekki góðir til starfa. Þá ætla ég aftur að segja að mál eins og þetta hér á ekki að gjalda fyrir það að framkvæmd laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hefur ekki verið neitt sérstök. Og ég ætla líka að segja að það er ýmislegt í mannauðsstefnu ríkisins sem gæti verið fært til betri vegar og er verið að gera, ég þekki það, það er verið að gera það núna. Ég man t.d. eftir því að það voru uppi áætlanir, sem ég veit ekki hvar eru staddar núna, um að gera Stjórnarráð Íslands að einum vinnustað, sem þýðir t.d. að einhver gæti orðið starfsmaður eins ráðuneytis og flust síðan til milli ráðuneyta, milli starfa, haldið sér á tánum og fengið fjölbreytni í sitt ævistarf eða starf á þeim tíma sem unnið er hjá ríkinu. En þetta er annað mál. Þetta er bara spurning um að ríkið sem húsbóndi eða sem vinnuveitandi sé framsækið og geri sitt til þess að starfsþróun starfsmanna ríkisins verði með góðum og áhugaverðum hætti. Ég veit að það er mikið starf í gangi hjá ríkinu til að svo geti verið.

Ég held að ef við tökum þetta saman allt í heild verði það til mikilla bóta. Við leiðréttum það að mönnum sé ekki hent úr starfi sjötugum, tökum upp heildarendurskoðun á lögunum um opinbera starfsmenn og að ríkið geri ennú meira og enn betur í því að þróa starfsumhverfi sinna starfsmanna og gera það eftirsóknarverðara. Þar koma launin vissulega inn eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé minntist á.

Mér heyrðist hv. þm. Brynjar Níelsson vilja fara aftur í þá átt að embættismenn ríkisins ætti að vera æviráðnir. Þeir eru núna skipaðir til fimm ára í senn. Hann sagði að þetta væri svo mikil óvissa. Við búum nú við þessa óvissu sjálfir, ekki fimm ár heldur fjögur og stundum styttra, ef menn missa móðinn. En margir embættismenn sem eru á þessari fimm ára skipunarreglu eru á takk bærilega þokkalegum launum. Það kom fram í svari við fyrirspurn sem sá sem hér stendur beindi til fjármálaráðherra í vor, og á reyndar eftir að vinna úr því mikla magni upplýsinga sem þar kom fram. Af því að laun alþingismanna hafa t.d. verið mikið til umræðu á opinberum vettvangi þá er hægt að fullyrða að miðað við þau launakjör sem komu fram í svari við þessari fyrirspurn minni þá held ég að ég hafi bara hvergi fundið mann sem var á lægri launum en alþingismaður. Þá var verið að spyrja eftir hæstu launum og meðalheildarlaunum bæði í ráðuneytum og stofnunum þeirra o.s.frv.

Ég held að engan fýsi að fara aftur í æviráðningar eða æviskipunarfyrirkomulagið sem var í denn. Menn voru skipaðir, svo ég taki dæmi af handahófi, sýslumenn þrítugir og voru það bara þangað til þeir voru sjötugir. Það var ekkert hægt að hrófla við þeim á einn eða annan hátt, alveg sama hvernig þeirra starf fór fram, svo ég grípi bara eitt dæmi af handahófi og vona að ég fái ekki Sýslumannafélagið á mig.

Ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem þetta mál fær og vænti þess að það geti skoðast sem fyrsta skref í því að við skoðum alvarlega starfskjör og starfsumhverfi opinberra starfsmanna. Ég tek alveg fullkomlega undir það með hv. þm. Brynjari Níelssyni og fleirum sem hér hafa talað að það er nauðsyn á því að við gerum þessa heildarendurskoðun. En látum þetta mál ekki bíða eftir henni. Afgreiðum það núna.