149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

ráðstafanir til að lækka eldsneytiskostnað í millilandaflugi.

41. mál
[19:01]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er mjög gott mál til umræðu enda fluttu nokkrar þingkonur úr Norðausturkjördæmi frumvarp með sama markmið á 145. þingi árið 2016, frumvarp um breytingu á lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994, með síðari breytingum (jöfnun eldsneytisverðs á millilandaflugvöllum). Þá var 1. flutningsmaður hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir og auk hennar voru á málinu hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir.

Þrátt fyrir að um mjög gott mál sé að ræða þá velti ég því fyrir mér hver tilgangurinn sé með flutningi þess nú þegar unnið er að málinu í samræmi við byggðaáætlun sem við samþykktum hér með 62 samhljóða atkvæðum í vor. Þar samþykktum við öll að farið yrði í vinnu við jöfnun á aðstöðumun á millilandaflugvöllum. Þar eru afmörkuð verkefni. Það á að jafna aðstöðumun til þjónustu á millilandaflugvöllum landsins. Skipaður verður starfshópur til að vinna að tillögum og verðjöfnun flugvélaeldsneytis á millilandaflugvöllum landsins. Stefnt er að því að hópurinn skili tillögum í árslok 2018. Þetta er á ábyrgð og í vinnslu í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Afmarkaður tími er þetta ár. Þar er verkefnið mjög vel skilgreint og afmarkað. Því máli hefur verið fylgt vel eftir og þar hefur hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir ásamt fleirum staðið vörðinn og ýtt við þessu. Niðurstaðan er sú að við samþykktum þetta hér inn í stefnumótandi byggðaáætlun.

Því spyr ég hv. þingmann, 1. flutningsmann þessarar tillögu hér í dag: Hverju er þessu máli ætlað að ná fram sem er ekki nú þegar í vinnslu?