150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

kjör lifeyrisþega.

[15:24]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég held að hún kalli á það að ég fari aftur yfir það sem ég fór yfir áðan í svari mínu til hv. þm. Ingu Sæland, þ.e. hvað við höfum í raun og veru gert í þessari ríkisstjórn frá því að hún tók við í lok árs 2017. Ég held að það verði ekki of oft sagt því að svo virðist sem hv. þingmenn telji að mjög margt af því sem gert hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar í þágu tekjulægstu hópa samfélagsins gagnist ekki örorkulífeyrisþegum. En það er einfaldlega ekki rétt. Þess vegna hlýt ég að minna aftur á að hér erum við að ljúka afgreiðslu á skattkerfisbreytingum þar sem verið er að innleiða þriggja þrepa skattkerfi sem mun skila hlutfallslega mestri skattalækkun til tekjulægstu hópanna.

Ég hlýt að minna á það að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sérstaklega, í sinni mikilvægu vegferð þar sem unnið er að því að lækka greiðsluþátttöku fólks í íslensku heilbrigðiskerfi, forgangsraðað eldri borgurum og öryrkjum, fyrst í tannlæknakostnaði sem hafði staðið óhreyfður frá árinu 2004, þegar hæstv. heilbrigðisráðherra tók við, og síðast í komugjöldum á heilsugæsluna. Þetta eru þungir baggar að bera fyrir þessa hópa.

Ég hlýt að minna á það að stuðningur við félagslegt húsnæði mun sömuleiðis aukast sem skiptir mjög miklu máli fyrir örorkulífeyrisþega. Svo get ég farið aftur yfir tölur um að útgjöld á mann frá árinu 2017 hafa aukist að raunvirði um 13%, sem þýðir að laun örorkulífeyrisþega ættu að hafa hækkað um tæpar 30.000 kr. á mánuði fyrir hvern örorkulífeyrisþega miðað við þessa útreikninga, þ.e. 13% aukning.

Við verðum, herra forseti, að taka tillit til þess sem gert hefur verið þegar við ræðum þessi mikilvægu mál. Og eins og ég sagði líka áðan við hv. þm. Ingu Sæland er ekki þar með sagt að ekki megi gera enn betur í málefnum þessa hóps.