150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

skimun fyrir krabbameini.

[15:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Kannski aðeins að þessum ráðleggingum, þ.e. að klíníska myndgreiningarstarfsemin fylgdi þessum skoðunum, að það sé ástæða flutningsins. Staðreyndin er sú að hún var flutt fyrir þremur árum. Þetta var saman hjá Krabbameinsfélaginu en svo var klíníska greiningin flutt og þá er það notað sem rök fyrir því að færa restina yfir þremur árum seinna. Þetta eru náttúrlega ekki rök, hæstv. ráðherra. En gott og vel. Þá er það staðfest, a.m.k. hér í ræðustól, að hæstv. ráðherra ætlar að tryggja að fjármagn fylgi og ég vona að hann gleymi ekki þeim 10% sem Krabbameinsfélagið hefur sjálft borið af þessum kostnaði. Vonandi verður enn frekar bætt í þannig að biðlistarnir minnki og verði þá kannski í líkingu við það sem þeir voru áður hjá Krabbameinsfélaginu.

Mig langar, af því að við erum að ræða þessa tilflutninga og ávinning af því, að geta þess að nú er ríflega ár, ef ekki tæp tvö, frá því að líknarþjónustan Karitas var flutt yfir. Það fékkst aldrei almennilega á hreint hver væntur ávinningur væri af þeirri breytingu en það væri áhugavert að vita hvort hæstv. ráðherra hafi látið fara fram einhverja eftiráskoðun og hafi einhverjar upplýsingar fyrir okkur um það hvort einhver ávinningur varð af þeirri tilfærslu eða hvort hún fól í sér aukinn kostnað fyrir Landspítalann.